Inga Sæland fer nú mikinn í umræðunni um frumvarp heilbrigðisráðherra um rýmkun fóstureyðinga. Samkvæmt frumvarpinu verður fóstureyðing heimil fram að 22. viku auk annarra réttarbóta fyrir konur.
Guðmundur Ingi Kristinsson hefur mætt í viðtöl til að tala gegn frumvarpinu og Inga Sæland hélt eldræðu í þinginu um málið og var skömmuð af Steingrími J. Sigfússyni þingforseta.
Flokkur fólksins hefur átt erfitt undanfarið, misst tvo þingmenn og mikið fylgi. Samkvæmt skoðanakönnunum undanfarna mánuði myndi flokkurinn ekki ná inn manni. Hinum fámenna flokki hefur ekki tekið að gera sig gildan í umræðunni um þriðja orkupakkann en í þessu máli ætla Inga og Guðmundur að gera sig gild. Með málflutningi sínum gætu þau náð til kjósendahóps sem hefur verið afskiptur lengi í stjórnmálunum, hóps sannkristins fólks.