Sumarið er greinilega komið, þó að hitastigið mætti fara aðeins upp á við. Þeir sem búa svo vel að eiga skjólgott horn á pallinum eða svölunum ættu að smella í þennan svalandi sumardrykk en uppskriftina fundum við á Chelsea‘s Messy Apron.
Hráefni:
2/3 bolli sykur
2/3 bolli vatn
1½ bolli fersk bláber
1 tsk. sítrónubörkur, rifinn
1 bolli nýkreistur sítrónusafi (4–5 sítrónur)
2 bollar ísmolar
3 bollar sódavatn
Aðferð:
Setjið sykur, vatn, bláber og sítrónubörk í pott. Náið upp suðu yfir meðalhita, lækkið hitann og látið malla í 5 til 10 mínútur, eða þar til sykurinn er bráðnaður og bláberin byrjuð að springa. Takið af hitanum og látið renna í gegnum gatasigti. Látið kólna alveg. Blandið bláberjasírópinu síðan saman við sítrónusafa og ísmola í stórri könnu. Hrærið vel saman. Blandið sódavatni saman við rétt áður en njóta á drykksins, en þeir sem eru villtir geta bætt smá áfengi út í.