Kokteilboð fyrir keppendur Eurovision var haldið í Tel Aviv í gærkvöldi, nánar tiltekið við Herzliya-höfnina.
Meðlimir Hatara, ásamt fylgdarliði þeirra frá Íslandi, létu sig ekki vanta, en samkvæmt frétt á vef Oiko Times vakti klæðnaður Hatara mikla athygli meðal viðstaddra.
Sjá einnig: Blaðamenn setja Hatara í 2. sæti.
Hataraliðar ákváðu að skipta úr sviðsfötunum fyrir herlegheitin og vippuðu sér í kokteilklæðnað, eins og sjónvarpsmaðurinn Gísli Marteinn Baldursson sýnir frá í sögu sinni á Instagram. Eins og sést á meðfylgjandi mynd er kokteilklæðnaður Hatara örlítið litríkari en sviðsklæðnaðurinn, og búið að bæta við rauðum og drapplituðum smáatriðum sem gera mikið fyrir heildarlúkkið.
Hatari keppir í fyrri undanúrslitariðlinum í Tel Aviv þann 14. maí næstkomandi og æfðu lagið Hatrið mun sigra í fyrsta sinn á stóra sviðinu á sunnudaginn. Næsta æfing sveitarinnar er um hádegisbil á fimmtudaginn.