Venju samkvæmt eru blaðamenn í Eurovision-höllinni í Tel Aviv beðnir um að gefa atriði hvers lands stig eftir æfingar, en þessi stigagjöf getur oft gefið vísbendingu um hvernig fer í keppninni.
Eftir fyrstu æfingu Hatara fengu þeir alls 55 stig frá blaðamönnum, en stigagjöfin virkar þannig að hver blaðamaður velur sín þrjú uppáhaldsatriði og fær lagið í 1. sæti fimm stig, lagið í 2. sæti fær þrjú stig og loks fær atriðið í því þriðja eitt stig.
Af þeim listamönnum sem æfðu atriði sín á öðru degi æfinga er Hatari í 2. til 3. sæti, en sveitin er jöfn á stigum og framlag Grikklands, en það er Katerina Duska sem er fulltrúi Grikkja með lagið Better Love. Í fyrsta sæti eftir þennan annan dag æfinga er Ástralía með 77 stig, en hin ástralska Kate Miller-Heidke stal senunni í æfingunni með lagið Zero Gravity.
Lögin sem Hatrið mun sigra keppir við í fyrri undanúrslitariðlinum voru æfð á fyrsta og öðrum degi æfinga. Ef stigin frá fyrsta og öðrum degi æfinga eru tekin saman kemst Hatari áfram upp úr fyrri undanriðlinum með sín 55 stig og lendir í 5. til 6. sæti í þeim riðli. Ástralía ber sigur úr býtum í riðlinum, Kýpur lendir í 2. sæti, Serbía í því þriðja og Tékkland í fjórða sæti, ef spá blaðamanna gengur eftir.
Útlitið er hins vegar svart hjá Svartfjallalandi og Finnlandi, sem virðast enga möguleika eiga á að ná í úrslit.