fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Fréttir

Vilja að hætt verði við Secret Solstice: Segja stríðsástand ríkja og svæði undirlögð af eiturlyfjasölu

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 6. maí 2019 16:14

Frá Secret Solstice

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tónlistarhátíðin vinsæla Secret Solstice verður haldin í Laugardalnum dagana 21. – 23. júní næstkomandi. Hátíðin hefur strítt við rekstrarerfiðleika en nýir aðilar hafa tekið við henni og hafa staðfest að hátíðin verður haldin. Kemur þetta meðal annars fram í Fréttablaðinu á föstudaginn.

Hátíðin hefur lengi verið umdeild á meðal íbúa í hverfinu og núna hafa stjórnir foreldrafélaga allra nærliggjandi skóla sent frá sér harðorða ályktun þar sem þess er krafist að hátíðin verði ekki haldin í Laugardalnum. Segir meðal annars að ástandið í Laugardalnum á meðan hátíðinni stendur sé óboðlegt börnum:

„Það er óboðlegt að íbúar hverfisins séu neyddir til að halda börnum sínum frá útivistarsvæðum, leikvöllum, fótboltavöllum og skólalóðum hverfisins í kringum hátíðina, enda vilji þeir ekki eiga það á hættu að börn þeirra tíni upp áhöld til fíkniefnaneyslu og hálftómar áfengisumbúðir á þessum leiksvæðum hverfisins.“

Segir jafnframt í ályktuninni að stríðsástand ríki í Laugardalnum á meðan hátíðin fer fram:

„Ekki verður lengur unað við það stríðsástand sem skapast í kringum Secret Solstice í Laugardal ár hvert. Bílastæðin við KSÍ, Laugardalslaug, Húsdýragarðinn, Skautahöllina og við íbúðahús í nágrenninu eru á meðan á hátíðinni stendur undirlögð af eiturlyfjasölu og neyslu og er vandséð hvernig borgarfulltrúar okkar geta varið það.“

Þið vitið ekkert um hvað þið eruð að tala!

Mjög skiptar skoðanir eru um hátíðina á meðal íbúa Laugarneshverfis og kemur það fram í umræðum í FB-hópi íbúa. Kona ein sem heldur uppi vörnum fyrir hátíðina segir:

„Ég leyfi mér að halda því fram að ekkert ykkar sem eruð endalaust að drulla yfir þessa hátíð hafið farið á hátíðina og vitið því ekkert hvað þið eruð að tala um. Þrætið fyrir að gæslan hafi verið jafn öflug eins og hún var en hafið nákvæmlega ekkert fyrir ykkur í því. Ég var þarna í fyrra og hittifyrra og sérstaklega í fyrra varð ég mjög mikið vör við lögregluna og sá fíkniefnahundana margoft, bæði á daginn og kvöldin. En þið megið alveg halda áfram að halda að þið vitið betur en við hin sem höfum sótt hátíðina og viljum hafa hana áfram.“

Önnur kona svarar henni:

„Það er bara alls ekki rétt hjá þér, fjölmargir hafa sjálfir verið þarna og aðrir hafa tekið þátt í foreldraröltinu við svæðið og um hverfið á meðan á hátíðinni stendur svo þeir sem tjá sig um hvað þér hafa upplifað í sambandi við þessa hátíð.“

Jón Bjarni Steinsson er fyrrverandi starfsmaður hátíðarinnar en hún er nú komin í hendur annarra aðila. Jón Bjarni blandar sér í þessar umræður og svarar meðal annars fullyrðingum um óþrifnað á hátíðarsvæðinu:

„Síðasta sumar sá Hreinsitækni um þrif í nærumhverfi hátíðarinnar daglega og innan svæðisins var það breskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í þrifum á útisamkomum sem sá um þrif. Það bárust engar athugasemdir um óþrifnað innan eða utan svæðis hvorki á meðan hátíðinni stóð eða eftir hana. Á hverju byggir þú þessa fullyrðingu?“

Jón Bjarni segist jafnframt hafa boðið foreldraröltinu að koma á svæðið í fyrr en ekki fengið svör.

Skuldirnar, maður!

Jóhannes Haukur Jóhannesson leikari minnir hins vegar á skuldir vegna hátíðarinnar í gegnum árin:

„Maður þarf nú ekki að fara á hátíðina til að vita að þar er tugmilljóna skuldahali. Listamenn og starfsmenn sem ekki hafa fengið greitt fyrir vinnu sína. Að auki 19 milljóna skuld við borgina.“

Í Fréttablaðinu kemur fram að hátíðin verður ekki haldin nema að nýir skipuleggjendur hennar greiði skuld fyrri aðila við Reykjavíkurborg upp á 10 milljónir. Í sömu frétt staðfesta nýir skipuleggjendur hins vegar að hátíðin verði haldin.

Ályktun foreldrafélaganna vegna Secret Solstice er í heild eftirfarandi:

„Ályktun stjórna foreldrafélaga Laugalækjarskóla, Laugarnesskóla, Langholtsskóla og Vogaskóla vegna áforma um Secret Solstice

Stjórnir Foreldrafélaga Laugalækjarskóla, Laugarnesskóla, Langholtsskóla og Vogaskóla fara þess á leit við borgarráð og aðra kjörna fulltrúa í Reykjavík, að tónlistarhátíðin Secret Solstice fari ekki aftur fram í Laugardal og á svæði Þróttar. 

Stjórnirnar telja ljóst að skipuleggjendum Secret Solstice og borgaryfirvöldum hafi ekki tekist að standa við gefin loforð hvað varðar umgengni í nærumhverfi tónleikastaðar; á leiksvæðum, leikskólum, skólalóðum og görðum íbúa. Það er því fullreynt að hægt sé að halda hátíðina með úrbótum, enda hafi slíkum úrbótum ítrekað verið lofað – en jafn oft hafi þau loforð verið svikin.

Það er óboðlegt að íbúar hverfisins séu neyddir til að halda börnum sínum frá útivistarsvæðum, leikvöllum, fótboltavöllum og skólalóðum hverfisins í kringum hátíðina, enda vilji þeir ekki eiga það á hættu að börn þeirra tíni upp áhöld til fíkniefnaneyslu og hálftómar áfengisumbúðir á þessum leiksvæðum hverfisins.

Umfang Secret Solstice er löngu komið yfir öll þolmörk hverfisins. Foreldrafélögin vilja jafnframt hvetja borgaryfirvöld til að standa að raunverulegri fjölskylduhátíð í Laugardal, enda væri það í betra samhengi við samþykkta forvarnarstefnu Reykjavíkurborgar, þar sem meðal annars kemur fram að mikilvægt sé að tryggja að börn séu örugg í umhverfi sínu og að spornað sé gegn hvers konar fíkniefnaneyslu.

Þá er vandséð hvernig það er verjandi að hátíð sem þessi taki yfir svæði íþróttafélagsins Þróttar í Laugardal, sem hefur það meginmarkmið að vera forvarnaraðili í þeirri heilsueflandi borg sem Reykjavík gefur sig gjarnan út fyrir að vera. Lögbrot tónleikahaldara þegar kemur að áfengissölu til ungmenna undir 20 ára aldri eru alvarleg og varða ekki eingöngu börn og unglinga í Laugardal heldur alls staðar af landinu. Á liðnum hátíðum hefur börnum og unglingum niður í 15 ára aldur verið veittur aðgangur að áfengiskaupum af skipuleggjendum hátíðarinnar.

Ekki verður lengur unað við það stríðsástand sem skapast í kringum Secret Solstice í Laugardal ár hvert. Bílastæðin við KSÍ, Laugardalslaug, Húsdýragarðinn, Skautahöllina og við íbúðahús í nágrenninu eru á meðan á hátíðinni stendur undirlögð af eiturlyfjasölu og neyslu og er vandséð hvernig borgarfulltrúar okkar geta varið það. Við krefjumst þess að staðið verði við yfirlýst markmið Reykjavíkurborgar, um að vera heilsueflandi borg þar sem tryggt er að börn séu örugg í umhverfi sínu.

Reykjavík, 30. apríl 2019
Með vinsemd og virðingu,
Stjórnir foreldrafélaga Laugalækjarskóla, Laugarnesskóla, Vogaskóla og Langholtsskóla.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Reikna með að hraunrennsli haldi áfram undir yfirborðinu

Reikna með að hraunrennsli haldi áfram undir yfirborðinu
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Lögregla fór í óvenjulegt útkall í Hafnarfjörð í gærkvöldi

Lögregla fór í óvenjulegt útkall í Hafnarfjörð í gærkvöldi
Fréttir
Í gær

Andstaða Sjálfstæðisflokksins við að tryggja orkuöryggi var ástæðan fyrir framboði Höllu Hrundar

Andstaða Sjálfstæðisflokksins við að tryggja orkuöryggi var ástæðan fyrir framboði Höllu Hrundar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tveir unglingar réðust á erlenda ferðamenn á Skólavörðustíg – Annar stuttur en hinn feitur

Tveir unglingar réðust á erlenda ferðamenn á Skólavörðustíg – Annar stuttur en hinn feitur
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Forviða ferðamaður þegar vél EasyJet flaug yfir eldgosið – „Lífið mitt hefur náð hámarki“

Forviða ferðamaður þegar vél EasyJet flaug yfir eldgosið – „Lífið mitt hefur náð hámarki“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir Sjálfstæðisflokkinn víst boða skattalækkun á þá efnamestu – „Glittir líka hressilega í undirlægjuhátt Sjálfstæðismanna“

Segir Sjálfstæðisflokkinn víst boða skattalækkun á þá efnamestu – „Glittir líka hressilega í undirlægjuhátt Sjálfstæðismanna“