fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Vilhjálmur hjólar í Kristján: „Nei það datt einum ríkasta manni á Íslandi ekki til hugar“

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 3. maí 2019 16:09

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er orðið grafalvarlegt þegar dómstólar sýkna fyrirtæki fyrir launaþjófnað vegna þess að starfsmaðurinn trúir og treystir að allt sé rétt greitt og áttar sig ekki á því fyrr en nokkrum árum seinna að fyrirtækið sem viðkomandi starfaði hjá hafði ástundað launaþjófnað á honum.“

Svo ritar Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, (VLFA) vegna dóms Héraðsdóms Vesturlands í gær í máli gegn Hvali hf. sem VLF hefur komið að á liðnum árum fyrir hönd félagsmanna sinna og starfsmanna Hvals hf.

Hvalur hf braut gegn starfsmanni

Hæstiréttur staðfesti í fyrra dóm Héraðsdóms Vesturlands gegn Hval hf., þar sem fyrirtækinu var gert að greiða starfsmanni sínum bætur vegna brota á ráðningarsamningi sem leiddu til vangoldinna launa og vannýtingar starfsmannsins á vikulegum frídegi sínum. Þurfti Hvalur að greiða honum rúmlega hálfa milljón króna í bætur ásamt dráttarvöxtum.

Vilhjálmur skrifar um rimmu félagsins við fyrirtækið og vandar eiganda og forstjóra Hvals, Kristjáni Loftssyni, ekki kveðjurnar, þar sem Kristján fari ekki eftir dómi Hæstaréttar.

Segir Vilhjálmur að málið hafi verið fordæmisgildandi og því tekið til annarra starfsmanna Hvals einnig:

„Formaður átti svo sannarlega von á því að einn ríkasti maður Íslands myndi í ljósi þess að Hæstiréttur var búinn að staðfesta að Hvalur hafði hlunnfarið starfsmenn sína um gríðarlegar upphæðir, lagfæra og endurgreiða öllum starfsmönnum samkvæmt dómi Hæstaréttar. Nei það datt einum ríkasta manni á Íslandi ekki til hugar heldur hélt hann áfram að reyna að koma sér hjá því að greiða eftir ráðningarsamningum og ákvæðum kjarasamninga,“

segir Vilhjálmur og bætir við:

„Í ljósi þess að núna gat Hvalur hf. ekkert borið fyrir sig að fyrirtækið ætti ekki að greiða þessa sérstöku greiðslu samkvæmt ráðningarsamningum starfsmanna og svokallaðan vikulega frídag þá tók fyrirtækið upp aðrar varnir í málinu sem lutu að aðgerðaleysi og tómlæti starfsmanna við að sækja sinn rétt. Já nú skyldi reynt af hálfu Hvals hf. til að finna nýja leið til að komast hjá því að greiða hinum 100 starfsmönnunum sem höfðu verið hlunnfarnir um þessa sérstöku greiðslu og sinn vikulega frídag eins og Hæstiréttur var búinn að segja með dómi sínum að starfsmenn ættu rétt á. Já nú var það starfsmönnum um að kenna að hafa ekki áttað sig á því nægilega snemma að Hvalur hf. hafi í nokkur ár verið að hlunnfara þá og því krafðist Hvalur hf. sýknu vegna tómlætis starfsmanna við að fylgjast með réttindum sínum. Að hugsa sér að fyrirtæki sem vill láta taka sig alvarlega beri fyrir sig tómlæti starfsmanna sem trúðu og treystu að verið veri að greiða þeim öll þau laun sem ráðningarsamningur þeirra kvæðu á um.“

Sýndu tómlæti og tapa því málinu

Samkvæmt dómi Héraðsdóms Vesturlands í gær, þarf Hvalur Hf. ekki að greiða öðrum starfsmönnum bætur fyrir að brjóta á ráðningasamningi þeirra, þar sem starfsmennirnir hafi sýnt „tómlæti“ með því að hafa ekki áttað sig sjálfir á að verið væri að hlunnfara þá.

Vilhjálmur segir þetta með ólíkindum:

„Það ótrúlega síðan að Héraðsdómur Vesturlands tók undir með Hval hf. um að starfsmenn sem voru algerlega grandalausir fyrir því að verið væri að svíkja þá um kjarasamningsbundinn laun var sýknað af kröfu allra starfsmanna á grundvelli tómlætis. Formaður félagsins er forundran á því að hægt sé að dæma starfsmenn fyrir tómlæti þegar þeir höfðu ekki hugmynd um að Kristján Loftsson eigandi Hvals hf. væri að svína á réttindum þeirra samkvæmt ráðningarsamningum og ákvæðum kjarasamninga. Um leið og starfsmenn áttuðu sig á því að hugsanlega væri verið að brjóta á réttindum þeirra var farið með prófmál fyrir dómstóla. Takið eftir það var gert um leið og menn höfðu grunsemdir að allt væri ekki með felldu við kjör starfsmanna. Hvernig geta dómstólar talað um tómlæti hjá venjulegu verkafólki sem hafði ekki hugmynd um að verið væri að hlunnfara þá um þau laun sem þeim ber?“

Tómlæti trompi svik og pretti

Þá spyr Vilhjálmur ýmissa spurninga er varðar dóminn í gær, til dæmis hvaða skilaboð er verið að senda út í samfélagið með þessu:

„Hvert eru dómstólar eiginlega komnir að varpa ábyrgðinni algerlega yfir á verkafólk sem því miður hefur oft á tíðum ekki þekkingu, kunnáttu né skilning á túlkun ráðningarsamninga né kjarasamninga og láta óprúttna atvinnurekendur sleppa við að greiða starfsmönnum þau laun sem þeir eiga sannarlega rétt á. Eins og í þessu tilfelli enda Hæstiréttur búinn að kveða upp að ekki var verið að greiða eins og ráðningarsamningar starfsmanna kváðu á um.

Hvað skilaboð eru dómstólar eiginlega að senda út í samfélagið ?  Ef atvinnurekendur svíkja og svindla á launafólki þá geti þeir komist upp með það ef starfsmenn átta sig ekki á því fyrr en of langt er um liðið ???

Formaður spyr einnig, því er launaþjófnaður atvinnurekenda meðhöndlaður með öðrum hætti en annar þjófnaður? Ætlar einhver að halda því t.d. fram að ef starfsmaður ástundar þjófnað frá fyrirtæki sem það starfar hjá fyrir jafnvel hundrað milljóna að hann verði sýknaður vegna tómlætis því eigendur fyrirtækisins komust ekki að þjófnaðnum fyrr of seint ?  Nei það gerist ekki, enda starfsmaður sem stelur frá fyrirtæki fyrir hundruð milljóna hrepptur í gæsluvarðhald óháð því hvort liðinn séu 2 til 3 ár frá því þjófnaðurinn hófst.

Að sjálfsögðu mun Verkalýðsfélag Akraness áfrýja þessum óskiljanlega dómi fyrir Landsrétti og vonar formaður svo sannarlega að þessum ótrúlega ruglaða dómi verðið snúið við og réttlæti starfsmanna sigri að lokum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt