Hatarameðlimir opnuðu nýverið á sölu á varningi á heimasíðu sinni og kennir þar ýmissa grasa. Hægt er að versla dæmigerðan varning eins og boli og plaköt, en einnig er hægt að fjárfesta í brjóstmyndum af söngvurum Hatara, þeim Klemens Hannigan og Matthíasi Tryggva Haraldssyni.
Samkvæmt vefverslun Hatara er um að ræða vörur í takmörkuðu magni, en stytturnar eru hannaðar af hinum heimsþekkta myndhöggvara GBB, sem ættaður er frá Barselóna. Með hjálp leitarvélarinnar Google finnst þó enginn myndhöggvari með þessu nafni í Barselóna, einungis hótelkeðja og sálfræðiaðstoð.
Stytturnar eru unnar úr ljósgrýti sem finnst í nokkru magni norður af Sikiley. Þá þekur það um 2% yfirborðs Íslands samkvæmt Wikipedia og er Torfajökulssvæðið í Friðlandi að fjallabaki stærsta ljósgrýtissvæði landsins.
Stytturnar vega sextíu kíló og kosta 50 þúsund Evrur, tæplega sjö milljónir króna. Sendingarkostnaður er ekki innifalinn.