Game of Thrones-stjarnan Sophie Turner gekk að eiga tónlistarmanninn Joe Jonas í gær í Las Vegas. Það var bandaríski plötusnúðurinn Diplo sem birti myndbönd úr athöfninni í sögu sinni á Instagram, en athöfnin fór fram beint eftir Billboard-tónlistarverðlaunin í gærkvöldi.
Sophie, sem er þekktust fyrir að leika Sönsu Stark í Game of Thrones, klæddist fallegum, hvítum brúðarkjól og slöri á meðan að Joe var í gráum jakkafötum og hvítri skyrtu. Það var Elvis eftirherma í rauðum samfestingi sem gaf þau saman. Aðeins nánustu fjölskyldu og vinum brúðhjónanna var boðið í þennan óvænta mannfögnuð og var dansað fram eftir nóttu í gleðivímu.
Sophie og Joe byrjuðu að stinga saman nefjum haustið 2016 og trúlofuðu sig í október ári síðar. Sagðar voru af því fréttir fyrir stuttu að parið myndi ganga í það heilaga í Frakklandi í sumar, en óljóst er hvort önnur brúðkaupsveisla verði haldin þar.