Alþjóðlegir aðdáendur Hatara á Facebook hafa verið duglegir upp á síðkastið að viða að sér ýmsum upplýsingum um Hatara í aðdraganda Eurovision-keppninnar í Tel Aviv í maí.
Meðal þess sem aðdáendur hafa áttað sig á er tengingin á milli Hatara og Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra. Það er kona að nafni Johanna Hammer sem bendir erlendum aðdáendum sveitarinnar á að kynningarmyndband Hatara, sem spilað var í úrslitum Söngvakeppninnar, er kómísk endurgerð á kosningamyndbandi Bjarna Benediktssonar, en flestir Íslendingar hafa eflaust áttað sig á þessu.
„Þetta var auðvitað önnur brella hjá Hatara, þó þetta virtist saklaust. Þetta var tilvísun í fyrrverandi forsætisráðherra sem gerði myndbandið til að bæta ímynd sína eftir hneykslismál! Sumt sem hann segir er meira að segja endurtekið í myndbandi Hatara – Klemens segir að það sé mikill kærleikur í kökunni og Matthías minnist á að hún sé örlítið klístruð,“ skrifar Johanna. „Kakan lítur meira að segja eins út!!“
Aðrir aðdáendur skemmta sér konunglega yfir þessari tengingu.
„Hahaha, allt við Hatara passar. Af hverju eru þeir svona hæfileikaríkir?!!“ skrifar aðili í nafni annarrar aðdáendasíðu hljómsveitarinnar. „Hatari er eins og laukur. Maður fjarlægir eitt lag og uppgötvar nýtt,“ skrifar Adet Aboderin.