fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Pressan

Málið sem Pútín hélt að hann gæti þagað í hel

Pressan
Laugardaginn 2. nóvember 2024 19:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í ágúst 2000 sökk einn stærsti kjarnorkukafbátur heims, hinn rússneski Kursk, til botns og sat þar fastur á 107 metra dýpi, á botni Barentshafs. Um borð voru 118 rússneskir sjóliðar, og létust 95 samstundis en 23 sátu dögum saman og biðu eftir björgun sem aldrei barst. Þegar Vladimír Pútín, forseti Rússlands, mætti brosandi í viðtal hjá Larry King á bandarísku sjónvarpsstöðinni CNN þann 8. september 2000 var hann spurður hvað hefði komið fyrir. Svarið var tvö orð: „Hann sökk.“

Slysið er ekki gleymt í Murmansk, heimahöfn Kursk, þótt tuttugu ár séu liðin frá slysinu. Margir í áhöfninni voru frá Murmansk en aðrir voru frá öðrum borgum og bæjum víða um landið. Víða um Rússland ólust því börn upp án feðra sinna og margar konur urðu ekkjur. Það liðu níu dagar áður en ljóst var að þau myndu aldrei sjá maka sína, syni, feður og bræður aftur. Í níu daga barðist fólkið árangurslaust við að reyna að fá upplýsingar um hvað hefði gerst um borð í Kursk og hvað væri gert til að reyna að bjarga áhöfninni.

Í Murmansk er sú tilfinning og skoðun enn ríkjandi að rússneski sjóherinn hafi brugðist í málinu, hann hafi ekki gert allt sem í hans valdi stóð til að bjarga áhöfninni. Finnst fólki sem ríkisstjórnin hafi einnig brugðist því hún hafi ekki brugðist nógu skjótt við.

Kafbáturinn Kursk
118 sjóliðar fórust þegar hann festist, bilaður á botni Barentshafs.

Mörgum spurningum er ósvarað

Enginn var dreginn til ábyrgðar fyrir slysið og ættingjar þeirra sem fórust hafa ekki fengið svör við fjölda spurninga sem verður líklegast aldrei svarað. Af hverju laug yfirstjórn flotans? Af hverju átti flotinn ekki nauðsynlegan öryggisbúnað og af hverju afþakkaði hann aðstoð frá Bretum og Norðmönnum á fyrstu dögunum eftir óhappið? Á þeim dögum sem skiptu mestu máli fyrir þá 23 menn sem sátu fastir á hafsbotni.

Minningin um þetta stóra slys rússneska hersins og ekki síður fyrstu stóru krísu Vladimírs Pútíns á forsetastóli hefur að vonum dofnað með árunum, og slíkt hið sama má segja um viðhorf fólks til aðgerða, eða aðgerðaleysis, yfirvalda. Þegar könnun var gerð árið 2000 töldu 72 prósent aðspurðra að yfirvöld hefðu ekki gert allt sem í þeirra valdi stóð til að bjarga áhöfn Kursk. Um 15 árum síðar voru aðeins 35 prósent þessarar skoðunar en 26 prósent sögðu að erfitt væri að segja til um það.

Þetta var ekki fyrsta kafbátaslys Rússa. Í apríl 1989 sökk kjarnorkukafbáturinn Komsomolets eftir 39 daga úthald. Manntjónið var mun minna en þegar Kursk fórst. Slysið vakti heimsathygli, ekki síst vegna getuleysis rússneska flotans sem gat ekki staðið fyrir nauðsynlegum björgunaraðgerðum. Það var nýlunda fyrir Rússa að komast svona í kastljós vestrænna fjölmiðla en CNN fjallaði til dæmis stöðugt um slysið.

Vladímír Pútín
Murmansk búar gleyma ekki Kursk.

Hefði átt að stytta fríið

Þegar Pútín mætti í fyrrnefnt viðtal hjá Larry King varði hann aðgerðir rússneskra yfirvalda og þá ákvörðun að þiggja ekki aðstoð frá Bretum og Norðmönnum (margir telja að Rússar hafi verið of stoltir til að þiggja hana). Pútín taldi ekki að hann hefði gert neitt öðruvísi varðandi málið, svona eftir á að hyggja, en þó var eitt sem hann nefndi að hann hefði átt að gera öðruvísi. Það var að stytta frí sitt við Svartahaf því ef hann hefði bundið enda á það strax hefði það væntanlega „litið betur út frá sjónarhorni almannatengsla“.

Hugsanlega má kenna reynsluleysi Pútín í stjórnmálum um en hann var nýgræðingur á því sviði á þessum tíma. Ekki er útilokað að hann myndi taka öðruvísi á álíka máli í dag því hann hefur væntanlega áttað sig á að það er betri saga ef fólki er bjargað en ef það deyr.

Í Murmansk eru margir ósáttir við að enginn hafi verið dreginn til ábyrgðar á slysinu. Vjatjeslav Popov, æðsti yfirmaður Norðurflotans, og Mikhail Motsak starfsmannastjóri voru lækkaðir í tign í kjölfar slyssins en Popov er í dag þingmaður í héraðsstjórn Murmansk en hann var kjörinn í hana fyrir flokk Pútín.

Hin opinbera niðurstaða á tildrögum þess að Kursk sökk er að sprenging hafi orðið um borð, en flotinn setti þá skýringu fram á sínum tíma að kafbáturinn hefði lent í árekstri við annan kafbát. Það féll ekki að sjónarmiðum ríkisstjórnarinnar og því er sprengingarskýringin hin opinbera skýring í dag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Neyddu drengi til að brjóta kynferðislega á smábarni

Neyddu drengi til að brjóta kynferðislega á smábarni
Pressan
Fyrir 2 dögum

Piers Morgan biður grenjandi vinstri menn vinsamlegast um að halda kjafti – „Ég er kominn með nóg af þessu“

Piers Morgan biður grenjandi vinstri menn vinsamlegast um að halda kjafti – „Ég er kominn með nóg af þessu“
Pressan
Fyrir 4 dögum

Sakar Joe Biden um að byrja þriðju heimsstyrjöldina áður en pabbi hans tekur við sem forseti

Sakar Joe Biden um að byrja þriðju heimsstyrjöldina áður en pabbi hans tekur við sem forseti
Pressan
Fyrir 4 dögum

Hér þarftu að passa töskuna þína og armbandsúr vel – Þjófagengi fara mikinn

Hér þarftu að passa töskuna þína og armbandsúr vel – Þjófagengi fara mikinn