Umræðan á köflum trúarbragðakennd – Neysla kannabis hefur áhrif á heilann
Talsverð umræða hefur verið að undanförnu um fíkniefni, refsirammann og svo það hvort við eigum hreinlega að lögleiða ákveðnar tegundir fíkniefna. Þegar maður skoðar hvað er að gerast í kringum okkur verður ljóst að það er afar mismunandi hvernig þjóðríki taka á málum, sérstaklega varðandi hin svokölluðu mjúku efni. Við getum verið sammála um það að stríðið gegn fíkniefnum hefur ekki gengið sérlega vel almennt, þrátt fyrir tiltölulega stífan refsiramma virðist það ekki hafa sérstakan fælingarmátt.
Aukning í notkun lyfseðilsskyldra lyfja í þeim tilgangi að komast í vímu hefur einnig verið vaxandi víðast hvar um heiminn má segja og í dag eru sprautufíklar mun frekar í slíkri neyslu hérlendis heldur en hinum hefðbundnu hörðu efnum, þó þau séu vissulega enn talsvert í umferð.
Um þetta málefni má segja að umræðan verður á tíðum trúarbragðakennd, bæði hjá þeim sem eru með og á móti. Við höfum heyrt ráðherra heilbrigðismála tjá sig um það að afnám refsingar vegna fíkniefnaneyslu kunni að vera fýsilegur kostur. Margir eru honum sammála þar, sérstaklega þeir sem neyta efnanna, en fjölmargir aðrir til viðbótar.
Staðan er flókin og fléttast saman ekki einungis hin hörmulega aðstaða fíkilsins, heldur einnig hin tækifærissinnaða nálgun á líf, líkama og frelsi hans af hálfu þess sem selur efnin í þeim tilgangi að græða peninga. Þá er ofbeldi beinn fylgifiskur ólöglegs athæfis sem þessa og hafa sumir sagt að lögleiðing vímuefna myndi kippa stoðunum undan skipulagðri glæpastarfsemi.
Ekki er ég svo viss um það. Ég er svosem enginn sérfræðingur um þennan heim, það sem hins vegar kemur fram er að það hefur afgerandi áhrif á heilsufar viðkomandi einstaklings að lenda í neyslu, hver sem hún er. Já, líka neyslu á kannabisefnum! Það hefur ekkert með það að gera hvort við lögleiðum eða breytum refsiramma varðandi neyslu ákveðinna efna. Þó svo það sé löglegt að drekka áfengi er ekkert samasemmerki á milli þess og hollustu, reyndar síður en svo í mjög mörgum tilvikum eins og við öll þekkjum. Það verður því að aðskilja umræðuna varðandi fíknisjúkdóm annars vegar og refsingu hins vegar.
Nýlega hafa nokkur ríki í Bandaríkjunum opnað fyrir sölu á kannabisefnum, slíkt hefur verið leyft í Hollandi um árabil. Áhugavert verður að sjá hvernig það þróast annars staðar. Sú staðhæfing að það sé meinlaust að reykja hass og skyld efni stenst enga skoðun, það er hins vegar algerlega ótengt því hvort eigi að refsa fólki fyrir það eða ekki.
Við skulum skoða áhrif kannabisreykinga á heilsufar. Það virðist ljóst að við getum ekki tekið undir það að slíkt sé meinlaust, öruggt er að það er háð magni og tíðni reykinganna. Skammtímaáhrifin eru, fyrir utan vímuna, minnisskerðing, aukin matarlyst, hjartsláttur, munnþurrkur, sljóleiki og truflun á samhæfingu hreyfinga. Venjulega er tóbak notað sem burðarefni og því andar fólk að sér öllum þeim skaðlegu efnum sem fyrirfinnast í sígarettum líka, sem eru þekktir áhættuþættir fyrir myndun krabbameina í lungum og víðar.
Rannsóknir hafa sýnt að ítrekuð neysla á kannabis virðist hafa áhrif á starfsemi heilans, blóðflæði minnkar til stöðva sem sjá um minni og athygli, breyting verður á stærð thalamus sem sér um meðvitundarstig og úrvinnslu upplýsinga. Þeir sem reykja mikið standa sig verr í prófunum sem tengjast minni og úrvinnslu þar af leiðandi og virka efnið safnast upp í líkamanum að talið er svo áhrifin eru til lengri tíma. Þetta ástand er verra eftir því sem einstaklingurinn er yngri og heilinn óþroskaðri. Líkurnar á að þróa með sér geðklofa eða geðrof eru auknar. Þá er talið að andleg líðan versni, kvíði og depurð aukist og þannig má lengi telja.
Samanburðurinn við önnur fíkniefni er erfiður og heimurinn er ekki alveg svarthvítur hvað þetta snertir. Forvarnir og fræðsla eru og verða þau tól sem munu sýna hvað mestan árangur í þeirri viðleitni að viðhalda góðri líkamlegri og andlegri heilsu. Það á að ekki síður við um fíkn en aðra sjúkdóma, hvað sem löggjöfina snertir.