Það getur verið gott að grípa pizzuafgang úr ísskápnum og hita upp í örbylgjuofninun þegar hungrið sverfur að. En það er einmitt ekki það sem á að gera þegar pizza er hituð, að minnsta kosti ekki ef fólk vill fá stökka og ljúffenga pizzu sem bragðast jafn vel og daginn áður.
Pizzastaðurinn Robertos í Brooklyn í New York bjó eitt sinn til leiðbeiningar um hvernig á að hita pizzur upp. Þó leiðbeiningarnar séu ekki algjörlega nýjar af nálinni þá er um að gera að birta þær, þar sem þær eiga alltaf við.
1. Pannan er hituð á millihita, þetta þarf að vera panna með „non stick“ húð.
2. Pizzan er sett á pönnuna og hituð í tvær mínútur en þá á botninn að vera orðinn stökkur.
3. Því næst eru nokkrir vatnsdropar settir á heita pönnuna, þeir eiga ekki að snerta pizzuna.
4. Lokið er sett yfir og pizzan látin vera á pönnunni í eina mínútu til viðbótar en þá á osturinn að vera bráðnaður.
5. Þá er bara að borða gómsæta pizzuna.