Magnús Thorlacius er kornungt ljóðskáld og upprennandi sviðslistamaður sem nýlega gaf út ljóðabók sem innblásin er af reynslu hans af því að starfa í IKEA. Þar var Magnús starfsmaður um tæplega tveggja ára skeið og þegar hyllti undir starfslokin fékk hann þá hugmynd að skrifa ljóðabók um þetta efni.
Magnús telur IKEA var stóran hluta af íslenskri þjóðarsál. „Ég hef hvorki jákvæða né neikvæða mynd af IKEA í dag – IKEA er bara IKEA,“ segir Magnús.
Honum líkaði ekki illa að vinna í IKEA en stundum varð starfið leiðigjarnt: „Ég var alltaf að leysa sömu vandamálin alla daga og ég var alltaf að svara sömu spurningunum. Ég fékk þess vegna þá hugmynd að svara þessum spurningum með abstrakt hætti í þessum ljóðum. Í svörunum sem bókin geymir er hamingjunnar leitað í tilgangsleysi hversdagsleikans.“
Hér eru sýnishorn úr bókinni:
Hvað er vinsælast?
Það er annaðhvort í tísku
að líða ógeðslega illa
eða ógeðslega vel
Þess vegna mun ég ávallt vera tískuslys
Fylgja samsetningaleiðbeiningar?
Til að negla minningar
að tíma meðvitundarinnar
fylgir
Til að skrúfa tilgang
að draumi eilífðarinnar
ekki
Til að bora leið
að æsku hamingjunnar
bæklingur
Hvernig kemst ég út?
Stysta leiðin
er merkt með gulum og bláum örvum
á göngum fyrirfram ákveðinnar lífsleiðar
Titillinn „Heimilislausar íbúðir“ er óvenjulegur og mótsagnakenndur. Magnús hefur þar í huga öll uppstilltu „heimilin“ sem blasa við viðskiptavinum í IKEA. „Þetta eru öll þessi mögulegu framtíðarhíbýli sem maður á möguleika á að eignast en enginn býr í þessum íbúðum. Þetta eru sýniseintök af hamingjunni sem fólk vill öðlast,“ segir Magnús.
Kápa bókarinnar er að sjálfsögðu í IKEA-litunum.
Leikhúsið og ritlistin heilla jafnmikið
Magnús, sem er aðeins 21 árs, lauk stúdentsprófi frá MH vorið 2018 og hefur nú fengið inni á Sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands. „Námið snýst um allt sem snýr að leikhúsi, að skrifa leikrit, setja upp sýningar, leikstýra,“ segir Magnús en ritlistin og leikhúsið heilla hann jafnmikið. „Svo getur maður nýtt það sem maður skrifar í leiksýningar,“ segir hann.
Útgáfuteiti vegna bókarinnar „Heimilislausar íbúðir“ verður í Tjarnarbíói fimmtudagskvöldið 2. maí kl. 20. Þar verður bókin að sjálfsögðu til sölu en hún kostar 2.000 kr. Hægt er nálgast eintök einnig með skilaboðum á netfangið verdlaus@gmail.com eða á facebook.com/verdlaus