Tulipop hlýtur verðlaunin í flokki hönnunar
AGUSTAVGeysirOddsson eftir hönnunarfyrirtækið DöðlurKALDA
Hönnunarfyrirtækið Tulipop hlýtur Menningarverðlaun DV í hönnunarflokki fyrir ævintýraheiminn Tulipop. Í umfjöllun dómnefndar segir: „Fyrir sjö árum stofnuðu Signý Kolbeinsdóttir og Helga Árnadóttir fyrirtæki utan um Tulipop-ævintýraheiminn. Síðan hafa um sjötíu vörur verið framleiddar undir merkinu, meðal annars borðbúnaður, lampar, töskur og annar nytjavarningur. Fyrirtækið hefur til þessa selt vörur sínar til 120 verslana í 14 löndum, en nýverið keypti bandaríski leikfangaframleiðandinn Toynami réttinn til framleiðslu á Tulipop-leikföngum sem koma á markað síðar á árinu. Afrakstur samstarfsins eru bangsar, plastfígúrur og sparibaukur og verður leikföngunum dreift í hundrað verslanir í Bandaríkjunum til að byrja með.“
„Við Signý erum gamlar vinkonur en haustið 2009 fórum við að spekúlera að gera eitthvað saman. Þá var ég nýkomin úr MBA-námi í London, og hún hafði verið að vinna sem teiknari, hafði gefið út og búið til vörur með myndunum sínum á og fengið myndir birtar í mjög flottum tímaritum. Hún var búin að þróa þennan flotta stíl og byrjuð að þróa alls konar karaktera. Við sáum að þetta var að falla í kramið hjá fólki á öllum aldri. Mér er sérstaklega minnisstætt að stjúpdóttir mín og vinkonur hennar sem voru þá átta ára elskuðu allt sem Signý gerði. Þær byrjuðu að safna póstkortum og minnisbókum, vildu vita meira um karakterana og heiminn. Þegar við sáum þetta urðum við sammála um að það væri tækifæri í að búa til fyrirtæki í kringum þennan ævintýraheim,“ segir Helga Árnadóttir, annar stofnenda fyrirtækisins.
En hvað er Tulipop?
„Tulipop er ævintýraeyja sem er kannski svolítið ómeðvitað innblásin af Íslandi á ýmsan hátt, þarna eru til dæmis eldfjöll og hverir. Á Tulipop er ótrúlega fjölbreytt náttúra, litrík og skringileg og þar býr skemmtilegt samansafn af litríkum og sniðugum karakterum sem að þó hafa allir sína galla – þetta eru sem sagt ævintýrapersónur sem eru þó bara eins og við öll inni við beinið.“
Hvað hafið þið að leiðarljósi í hönnuninni?
„Fyrst og fremst viljum við gera vandaða og fallega hluti sem gleðja bæði börn og foreldra. Til dæmis finnst okkur fátt skemmtilegra en þegar mæðgur koma inn í búð og vilja kaupa hvor sinn Tulipop-hlutinn. Við viljum líka gera hluti sem endast, hluti sem eru eigulegir og fara ekki bara beint í ruslið, hluti sem eru litríkir en samt klassískir. Í teikningunum er líka föndrað við öll smáatriði til að ná þessu fullkomnu og fallegu,“ segir Helga.
Tulipop-heimurinn er stöðugt að stækka og breikka, en um þessar mundir eru þær stöllur að opna skrifstofu í Bandaríkjunum og fyrstu vörurnar eru komnar í verslanir vestanhafs. Næst á dagskrá er svo sería af stuttum teiknimyndum sem munu birtast á netinu, og síðan munu þær opna fyrstu Tulipop-búðina í miðborg Reykjavíkur á næstunni.