Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, telur að stjórnmálaflokkarnir megi hafa áhyggjur af þeirri þróun sem þjóðfélagsumræðan hefur orðið fyrir vegna tilkomu tækninnar á undanförnum árum. Flokkarnir hafi breyst frá því að vera helsti vettvangur þjóðfélagsumræðna yfir í að vera að langmestu leyti vettvangur fyrir tilkynningar frá forystusveitum flokkanna og því sé krafturinn búinn að finna sér farveg utan flokka.
Styrmir, sem berst með kjafti og klóm gegn innleiðingu þriðja orkupakkans, notar einnig tækifærið til að senda þingflokki Sjálfstæðisflokksins væna sneið, fyrir að taka ekki mark á samþykktum Landsfundar Sjálfstæðisflokksins varðandi orkumál, en þar segir:
„Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins.“
Um þetta skrifar Styrmir:
„Sjálfsagt er þetta að einhverju leyti afleiðing nýrra samskiptaháttafólks. Samskiptamiðlarnir nýju hafa tekið við þessu hlutverki. En hvert er þá hlutverk flokkanna? Að velja frambjóðendur? Hvar fer stefnumörkun þeirra fram? Í þröngum hópum þingmanna og/eða forystusveita? Þeir hópar virðast ekki taka mark á samþykktum landsfunda eða flokksþinga. Það er eins og flokkarnir hafi týnt hlutverki sínu. Þetta væri verðugt umræðuefni á 90 ára afmæli Sjálfstæðisflokksins eftir nokkrar vikur.“