Skrautlegt var að fylgjast með handtöku Julians Assange úr fjarlægð. Náunginn búinn að safna skeggi í óbærilega leiðinlegri margra ára vist í sendiráði Ekvador í London. Svo leiðinlegri að hann á víst að hafa kúkað upp um alla veggi til að hafa ofan af sér. Við Íslendingar tökum þetta mál inn á okkur. Assange er okkar maður, vinur Birgittu Jóns og Kristins Hrafnssonar, Íslandsvinur. Við horfum bara fram hjá því að hann var ákærður fyrir nauðgun í Svíþjóð.
Svarthöfði fellir enga dóma um hvað sé satt og rétt í máli Assange. Svarthöfða finnst aftur á móti athyglisvert hvernig Íslendingar bregðast við þegar útlendingar sýna landinu minnsta áhuga.
Eva Joly bauð fram aðstoð sína við að taka til eftir hrunið og var hún ekki fyrr búin að sleppa orðinu en Íslendingar réðu hana á svimandi háum launum og titluðu þjóðardýrling. Þjóðinni til afsökunar þá var hún á sínum lægsta punkti og hefði þegið jákvæða athygli frá hvaða útlendingi sem var.
Sumir útlendingar þurfa ekki annað en að stíga hér niður fæti til þess að verða titlaðir Íslandsvinir og hljóta aðdáun okkar. Nefnir Svarthöfði Georges Pompidou, landa Evu Joly, í því samhengi. Pompidou var einn ómerkilegasti forseti Frakklands eftir stríð, en hann hitti Nixon á Kjarvalsstöðum og þar með var hann kominn í góðu bókina.
Ríkir karlar sem veiða hér lax þykir okkur vera einstaklega flottir. Við montum okkur meira af þeim en þeir gera af löxunum sem þeir veiða. Karl Bretaprins, golfarinn Jack Nicklaus og Cream-stjarnan Eric Clapton eru meðal þeirra helstu. Flestum Íslendingum væri nokk sama um danska stjórnmálamanninn Uffe Ellemann Jensen. En af því að hann er meðal duglegustu erlendu laxveiðimannanna þá elskum við hann og dáum. Sögusagnir voru uppi um að Horst Tappert, sem lék þýsku lögguna Derrick, renndi fyrir lax í Aðaldal en því miður fékkst það aldrei staðfest. Það hefði verið upplyfting fyrir þjóðarsálina.
Kórónan á íslenska smáborgarahættinum er og verður sennilega alltaf Bobby Fischer. Snarruglaður gyðingahatari sem fyrir slysni fæddist með hæfileika í skák og kom hingað til að tefla í einvígi um heimsmeistaratitilinn. Eftir á að hyggja var sennilega ekki gott fyrir andlega heilsu Íslendinga að fá þennan viðburð hingað, því að við fórum yfir um. Löngu seinna, þegar Bobby var búinn að mála sig út í horn í hinum siðaða heimi, var honum boðið hingað með pomp og prakt og íslenskt vegabréf gefið út með frygðarstunu landsmanna. Ekki nóg með það því einnig samþykkti þingheimur, nánast einróma, að opna sérstakt safn til heiðurs honum.
Við Íslendingar verðum að fara að átta okkur á að útlendingar eru fólk af holdi og blóði eins og við hér heima og við megum ekki missa alla rökhugsun þegar einhver lítur í áttina til okkar.