Viðskiptavinir gagnrýna stærðartöfluna
Flestir telja það öruggt að kaupa flíkur eftir stærðarnúmerum frá stórum verslunarkeðjum á borð við H&M. Það var þó ekki svo í vikunni þegar Marianne Grey keypti kjól í vefverslun í sinni „venjulegu“ stærð 12.
Þegar kjóll númer 12 passaði ekki, prófaði hún stærð 14, 16, 18 og loks númer 20 sem passaði á hana.
Marianne greindi frá þessu og FB síðu H&M í Bretlandi á dögunum en færslan fékk mikla undirtektir frá fólki sem hafði lent í sömu hremmingum. Frá þessu er greint á vef Metro.
Talsmaður H&M gaf í framhaldinu frá sér tilkynningu þar sem segir að líklega hafi kjóllinn verið vitlaust merktur. En það útskýrir kannski ekki af hverju svo margir aðrir gagnrýna misvísandi stærðir.
Í kjölfarið fór af stað umræða þar sem fólk sem nýtir sér vefverslunina frekar en að fara í búðir gagnrýnir harðlega að stærðirnar verði að vera réttar svo hægt sé að stóla á vefverslunina, sem hefur stækkað gríðarlega hratt síðustu ár.
Í svari frá H&M til Metro segir að allar stærðir á þeim 64 markaðssvæðum sem verslunarkeðjan er starfrækt í séu eins. „Við erum með sérstaka deild sem heldur utan um stærðir á fatnaðinum. Starfsfólk í þeirri deild sér til þess að stærðirnar passi fólki sem notar viðkomandi númer. Þó geta snið og efni verið misteygjanleg og því þarf viðskiptavinurinn alltaf að taka tillit til þess:“