Nú gengur sú samsæriskenning fjöllunum hærra á samfélagsmiðlum að Meghan sé ekki barnshafandi heldur geri hún sér upp óléttu með því að nota sérstaka óléttupúða undir kjóla sína. The Guardian skýrir frá þessu.
Á YouTube er hægt að finna mörg myndbönd um þetta og hafa sum þeirra fengið mörg hundruð þúsund áhorf. Myllumerkið #moonbump er mikið notað þegar þetta mál er til umfjöllunar á samfélagsmiðlum. #moonbump vísar til tungllendingarinnar 1969 sem margir samsæriskenningasmiðir telja vera uppspuna einan og hafi ekki verið neitt annað en sviðsetning á vegum bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA.
Hér fyrir neðan getur að líta færslur nokkurra samsæriskenningasmiða á Facebook um málið.
Í umfjöllun samsæriskenningasmiða um hertogynjuna skrifa margir að magi hennar líti vel út en það sé svo undarlegt að hann hverfi þegar hún beygir sig. Aðrir benda á að stærð magans breytist dag frá degi.
Það fer fyrir brjóstið á mörgum að Meghan er bandarísk, fráskilin og hörundsdökk. Öfgasinnaðir hægrimenn hafa lengi haft horn í síðu hennar þar sem hún er allt að því táknmynd alls þess sem þeir fyrirlíta, lituð og útlend að auki.