Alltaf stuð í fjallinu
Í vetur hefur skíðafæri ekki verið upp á marga fiska, en snjóleysi er ekki vandamál fyrir norðan á skíðasvæði Tindastóls í Skagafirði. „Skíðafærið hér fyrir norðan hefur verið feiknagott allt frá þriðja desember. Það má jafnvel segja að það hafi verið frábært færi, öllum skíða- og brettamönnum til mikillar ánægju. Hér er nægur snjór og stemningin er frábær,“ segir Viggó Jónsson, framkvæmdastjóri skíðasvæðis Tindastóls. Skíðasvæðið er í vestanverðum Tindastól í dal sem heitir Ytridalur sem er í um 15 kílómetra fjarlægð frá Sauðárkróki. Um er að ræða frábært og fjölskylduvænt skíðasvæði fyrir alla, bæði byrjendur og lengra komna.
„Í fjallinu erum við með fyrsta flokks 1.150 metra langa Leitner-diskalyftu sem var vígð í febrúar árið 2000. Lyftan byrjar í 445 metra hæð yfir sjávarmáli og liggur upp í 690 metra hæð. Fyrstu 300 metrarnir eru hentugir fyrir byrjendur og þá sem ekki treysta sér í mikinn bratta, svo það er auðvelt fyrir alla fjölskylduna að koma til okkar á skíði,“ segir Viggó. Einnig er svokallað töfrateppi í fjallinu fyrir þá allra yngstu og byrjendur. Um er að ræða færiband sem flytur skíða- og brettafólk upp smá spöl svo það geti rennt sér aftur niður. Einnig er um tveggja kílómetra göngubraut troðin daglega þegar svæðið er opið fyrir þá sem stunda gönguskíði.
„Hingað kemur fólk alls staðar að af landinu og einnig að utan. Um daginn stóð hér á töfrateppinu til dæmis 65 ára gamall ástralskur maður sem hafði aldrei áður stigið á skíði og skemmti sér konunglega á leiðinni niður,“ segir Viggó.
Á svæðinu er einnig lítill veitingaskáli þar sem hægt er að tylla sér niður eftir góða salíbunu í fjallinu og fá sér kakó, kleinur og soðbrauð með hangikjöti. „Héðan fer enginn svangur, hvorki í mat né afþreyingu,“ segir Viggó sem bókstaflega brennur í skinninu yfir að fá að segja frá Crazy Roller-tryllitækinu. „Síðast en ekki síst er hér sannkallað tryllitæki fyrir spennufíklana sem sækja í jaðarsportið. Þetta kallast Crazy Roller og er alveg stórskemmtilegt tæki. Farþeginn er ólaður niður í dekkjalaga hring sem rúllar með farþegann niður brekkuna fáeina hringi. Auðvitað er fyllsta öryggis gætt í hvert sinn,“ segir Viggó og mælir með því fyrir alla að skella sér norður í Tindastól að taka nokkrar bunur niður fjallið og prófa eina ferð í Crazy Roller, eða að minnsta kosti berja tækið augum. Crazy Roller er settur í gang á laugardögum á milli 13–15.
Á skíðasvæðinu er hægt að leigja svigskíði, gönguskíði og bretti. Í boði eru ýmsar stærðir þannig að bæði ungir og aldnir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Einnig er kennsla á svæðinu fyrir byrjendur.
Snjóbrettaæfingar: föstudaga 17–19 og laugardaga 11–14.
Skíðaæfingar: mánudaga, miðvikudaga, föstudaga, 17–19 og laugardaga 11–14.
Almennur opnunartími skíðasvæðisins:
Opið er alla virka daga frá 14–19
og um helgar frá 11–16.
Svæðið er einnig opnað fyrir hópa sem vilja koma á öðrum tímum. Til þess að hafa samband við Skíðasvæði Tindastóls er hægt að hringja í Viggó í síma 899-9073 eða senda tölvupóst á skidi@tindastoll.is. Einnig er hægt að hafa samband í gegnum Facebook-síðuna.
Nánari upplýsingar, eins og verðskrá og upplýsingar um viðburði, má nálgast á vefsíðu Skíðasvæðis Tindastóls og á Facebook-síðunni.