„Þetta byrjaði örugglega sem áskorun. Þetta náði ákveðnum hápunkti á árunum 2013 og 2014. Núna nenni ég ekki að biðja um „selfie“ með öllum, heldur aðeins þeim allra bestu. Ég er orðin mjög vandlát,“ segir Laufey Helga Guðmundsdóttir, Eurovision-aðdáandi og stjórnarmeðlimur í FÁSES, félags áhugafólks um Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Laufey er ein af þeim sem kemur að Eurovision-viðburðinum Júró-Stiklur í Bíó Paradís á morgun, en Laufey á sér afar sértækt áhugamál í tengslum við Eurovision-keppnina – hún safnar sjálfum, eða „selfie“ með stjörnum keppninnar.
„Ég byrjaði að fara á Eurovision árið 2007 og á eina góða mynd af mér með Eiríki Haukssyni það ár,“ segir Laufey þegar hún rifjar upp fyrstu myndina í afar tilkomumiklu stjörnumyndasafni. „Maður stundar það að skima eftir stjörnum á flugvellinum á leiðinni út á keppnina og til baka. Svo stekkum maður á fólk við töskubandið. Þetta getur verið mjög fáránlegt áhugamál,“ segir Laufey og hlær dátt, enda tekur hún sjálfa sig ekki mjög hátíðlega. Það stendur ekki á svörunum þegar hún er spurð að eftirminnilegasta sjálfsmyndamómentinu.
„Þegar ég var á Eurovision árið 2014 var ég sjálfboðaliði á aðdáendaþjónustuborðinu í blaðamannahöllinni. Allt í einu sá ég Carl Espen, norska flytjandann það árið, og hann labbaði fram hjá mér með sínu fylgdarliði. Ég var svo ótrúlega spennt fyrir laginu hans og mér fannst hann svo æðislegur söngvari að ég hljóp af stað, og til að missa ekki af honum stökk ég yfir einhvern sófa til að ná til hans. Ég fékk mynd af mér með honum og hann var alveg yndislegur. Ég tók hins vegar ekkert eftir því að norska ríkissjónvarpið var með hann í beinni útsendingu. Allt í einu hringdi mamma í mig, sem var að vinna í Noregi sem hjúkka, og hváði: „Var ég að horfa á þig að hoppa yfir sófa í beinni útsendingu í norska ríkissjónvarpinu?“ Það var svolítið vandræðalegt,“ segir Laufey og brosir.
Það er reyndar einnig ferskt í minni Laufeyjar þegar hún fékk mynd af sér með sigurvegara síðasta árs, Nettu Barzilai.
„Hún tróð upp á viðburði sem ég tók þátt í að skipuleggja og hún var baksviðs að biðja með hópnum sínum og núllstilla sig áður en hún steig upp á svið. Ég sem sagt truflaði þessa hugleiðslumeðferð. Mér til varnar þá truflaði ég hana til að segja henni að fara upp á svið, en náði myndinni í leiðinni,“ segir Laufey.
Nú hefur blaðamaður opnað flóðgátt því enn eitt atvikið poppar upp í huga þessa eldheita Eurovision-aðdáenda.
„Árið 2015 sat ég í blaðamannahöllinni, á fullu að skrifa frétt. Ég leit upp og sá Il Volo labba framhjá mér. Í fullkominni geðshræringu hrópaði ég: Strákar, má ég fá mynd af mér með ykkur?!“ segir Laufey, en In Volo er ítalskt popptríó sem vakti gríðarlega athygli í keppninni með lagið Grande Amore. Laufey fékk mynd af sér með þeim en bjóst ekki við því sem gerðist næst. „Ég var svo eftir mig eftir þetta að ég fór að gráta. Þeir voru svo næs og þetta var svo skemmtilegt.“
En hvaða Eurovision-stjarna hefur komið Laufeyju mest á óvart?
„Þetta er erfið spurning. Þetta fólk er bara venjulegt fólk. Það er það sem maður kemst að,“ segir Laufey. Þó er einn Eurovision-fari sem á sérstakan stað í hjarta hennar. „Ruslana er svo mikill fagmaður fram í fingurgóma,“ segir Laufey, en Ruslana sigraði eftirminnilega í keppninni fyrir hönd Úkraínu árið 2004.
„Ég hitti hana á „show“-i í Finnlandi árið 2017 og þakkaði henni fyrir skemmtunina. „Þetta er það skemmtilegasta sem ég geri að spila fyrir Eurovison-aðdáendur,“ sagði hún. „If you‘re happy, I‘m happy,“ bætti hún við. Hún er með hjartað í þessu.“
Varðandi fyrrnefndar Júró-Stiklur FÁSES er Laufey afar spennt fyrir viðburðinum, en um er að ræða einn vinsælasta viðburð ársins hjá FÁSES sem nú er að haldinn í sjötta sinn.
„Við sýnum brot úr öllum framlögum þessa árs og stiklað er á stóru um hvað er að fara að gerast í keppninni, með nördaskap í fyrirrúmi. Samhliða þessu verður í gangi kosning um það framlag sem FÁSES-liðum og áhorfendum finnst best. Auk þess höfum við svokallað sigurvegarahappdrætti, en áhorfendur draga þá eitt land og þeir sem draga landið sem sigrar í kosningunni fá glæsileg Eurovision-verðlaun,“ segir Laufey.
Viðburðurinn er haldinn í Bíó Paradís og verður með stærra sniði í ár. Júró-Stiklur eru hluti af Barnamenningahátíð og því er ókeypis inn, en blessuð börnin geta náð stórkostlegum myndum á viðburðinum.
„Við ætlum að vera með opinbera afsteypu af Eurovision-verðlaunagripnum á staðnum ef börn vilja mynda sig með honum og líða eins og Eurovision-sigurvegara,“ segir Laufey og hvetur alla til að mæta.
„Við hvetjum sem flesta til að koma því það er ekki nauðsynlegt að vera félagi í FÁSES eða neitt svoleiðis.“
Viðburðurinn hefst klukkan 17.30 en nánari upplýsingar má finna hér.