„Reksturinn hefur verið erfiður en við höfum náð að laga það aðeins til,“ segir Guðmundur Örn Jóhannsson, stjórnarformaður og stærsti hluthafi í fjölmiðlafyrirtækinu Hringbraut. Fyrirtækið var rekið með 65,5 milljóna króna tapi á sínu fyrsta rekstrarári, árið 2015 og var einnig rekið með tapi í fyrra. Þetta kemur fram á Vísi.
Sjónvarpsstöð, vefsíða og útvarpsstöð eru rekin undir nafni Hringbrautar en auk Guðmundar eru Rakel Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri og þáttastjórnandi og Jón von Tetzhner fjárfestir minnihlutaeigendur í fyrirtækinu.
Guðmundur kveðst finna fyrir erfiðu rekstarumhverfi en segir að fyrirtækið hafi meðal annars brugðist við með því að lækka kostnað og einblína á framleiðslu efnis.
Guðmundur kveðst jafnframt ætla að halda róðrinum áfram um sinn.
„Við sjáum fyrir okkur að sækja um styrki til framleiðslu á sjónvarpsefni líkt og framleiðslufyrirtækin og fleiri hafa gert. Við ætlum að halda áfram en ef það birtir ekki til á árinu 2017 þá endurmetum við stöðuna.“