Bandaríska rokkhljómsveitin Slayer hefur stefnt tónlistarhátíðinni Secret Solstice fyrir að hlunnfara sig um sextán milljónir króna. Frá þessu var sagt í kvöldfréttum RÚV. Slayer var aðalnúmerið á tónlistarhátíðinni Secret Solstice í fyrra, en nú hefur umboðsaðili sveitarinnar stefnt hátíðinni vegna skuldar upp á tæpar sextán milljónir króna sem er meirihlutinn af þóknun sveitarinnar. Samkvæmt frétt RÚV var gjalddagi kröfunnar 4. júlí í fyrra og hefur hún ekki enn verið greidd.
„Secret Solstice er með samning við Reykjavíkurborg til ársins 2020, en borgin styrkir hátíðina. Jón Gunnar Ásbjörnsson, lögmaður umboðsaðila Slayer, skrifaði bréf til borgarinnar um málið, þar sem kemur meðal annars fram að auk þess að hafa ekki greitt áðurnefnda kröfu, hafi forsvarsmenn hátíðarinnar haldið eftir 20 prósentum af tekjum Slayer til að standa skil á staðgreiðslu til skattayfirvalda. Ríkisskattstjóri hafi hins vegar staðfest að vörsluskattinum hafi ekki verið skilað. Í bréfinu er það sagt brot á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda,“ stendur í fréttinni á vef RÚV.
Það var fyrirtækið Solstice Productions sem hélt hátíðina í fyrra, sem og árin á undan en nú hefur fyrirtækið Live Events tekið við rekstrinum. Víkingur Heiðar Arnórsson er nýr framkvæmdastjóri Secret Solstice og segir í skriflegu svari til fréttastofu RÚV að mál Slayer sé Live Events óviðkomandi.
Umboðsaðili Slayer hefur sent bréf til Reykjavíkurborgar, en Secret Solstice er með samning við borgina um hátíðarhöld fram til 2020. Umboðaðili hljómsveitarinnar óskar eftir afstöðu Reykjavíkurborgar til þess að ekki sé búið að gera upp við aðalnúmerið frá því í fyrra en samt standi til að halda hátíðina í sumar.Að sögn Bjarna Brynjólfssonar, upplýsingafulltrúa Reykjavíkurborgar, er málið til skoðunar og verður fjallað um það í borgarráði í næstu viku.
Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens deilir frétt RÚV um málið á Facebook-síðu sinni og er ekki skemmt.
„Kennitölu skúrkar stela peningnum af íslenskum og erlendum listamönnum er þetta svona sem Reykjavíkur borg vill hafa það og hefur gert nýjan samning við þetta lið.Þetta er ólíðandi Herra Borga stjóri Reykjavíkur.“