Bókanir eru hægari en gert var ráð fyrir og fargjöld hafa lækkað
Það sem af er degi hefur úrvalsvísitalan lækkað um 6,43 prósent. Hlutabréf hafa lækkað í verði í fjölmörgum félögum í Kauphöll Íslands í dag. Eina félagið sem hefur hækkað er Nýherji. Mesta lækkunin er hjá Icelandair Group en þegar þetta er skrifað höfðu bréfin lækkað um 22,85 prósent. Þá hafa bréf í Eimskip lækkað um 3,79% og Össur 5,13%.
Lækkun á hlutabréfum Icelandair Group eru tilkomin vegna þess að í gær sendi fyrirtækið frá sér drög að ársuppgjöri félagsins fyrir síðasta ár.
Þar kemur fram EBITDA síðasta árs verði á bilinu 210 til 220 milljónir Bandaríkjadala en miðað við núverandi forsend¬ur gerir félagið ráð fyrir að EBITDA þessa árs verði aðeins 140-150 milljónir Bandaríkjadala.
Í tilkyninningu Icelandair Group til Kauphallarinnar segir:
„Að undanförnu hefur orðið breyting í bókunarflæði Icelandair til hins verra. Bókanir eru hægari en gert var ráð fyrir og meðalfargjöld á mörkuðum hafa lækkað umfram spár. Þessa þróun má einkum rekja til aukinnar samkeppni en einnig má leiða líkur að því að óvissa vegna breytinga í alþjóðastjórnmálum hafi áhrif á eftirspurn. Að auki hafa gjaldmiðlar þróast á óhagstæðan máta miðað við fyrra ár, olíuverð hefur hækkað og verkfall í sjávarútvegi hefur neikvæð áhrif á fraktstarfsemi félagsins. Á móti kemur að horfur í hótelstarfsemi Icelandair Group eru góðar.“
Þá segir að þegar hafi verið gripið til ótal aðgerða í rekstri samstæðunnar sem gert er ráð fyrir að skili hagræðingu og auknum tekjum. Áfram er gert ráð fyrir hóflegum innri vexti á árinu, og að mati stjórnenda félagsins eru langtímahorfurnar góðar