Cara Brookins yfirgaf ofbeldisfullan eiginmann sinn – Byggði 300 fermetra hús ásamt börnum sínum
Þegar Cara Brookins yfirgaf ofbeldisfullan eiginmann sinn var ljóst að hún þyrfti á nýju heimili að halda sem hentaði henni og fjórum börnum hennar; 2, 11, 15 og 17 ára. Cara vissi sem var að hún þyrfti að stilla væntingum í hóf enda var hún skyndilega orðin einstæð fjögurra barna móðir sem hafði ekki efni á mjög dýrri fasteign.
Cara hafði yfir ákveðnu fjármagni að ráða og miðað við það varð henni ljóst að þröngt yrði á þingi á heimili fjölskyldunnar – hvar sem það yrði. Hún fór þá að skoða þá möguleika sem í boði voru og tók í kjölfarið ákvörðun sem hún sér ekki eftir í dag.
Hún, ásamt börnum sínum, ákvað að byggja hús fyrir fjölskylduna og notaðist hún nær eingöngu við kennslumyndbönd á myndbandavefnum YouTube. Cara, sem er tölvunarfræðingur, reiknaði út að miðað við það fjármagn sem hún fengi frá bankanum hefði hún nóg til að kaupa lóð undir húsið og það byggingarefni sem til þurfti. Það eina sem fjölskyldan hafði ekki efni á var að kaupa vinnuna við að koma húsinu upp. Því var aðeins eitt í stöðunni; að gera það sjálf.
Þetta var árið 2008 en fyrir skemmstu kom út bók sem Cara ritaði um ævintýrið, Rise: How a House Built a Family. „Árið 2008 var YouTube-vefurinn ekki jafn umfangsmikill og hann er í dag og það var ekki mikið um undirsíður sem innihéldu kennslumyndbönd um það hvernig á að byggja hús,“ sagði Cara í viðtali við CBS. Með þolinmæðina að vopni studdust þau engu að síður við þau myndbönd sem þau fundu. Níu mánuðum eftir að hafist var handa við byggingu hússins, sem stendur á laglegum stað í Arkansas í Bandaríkjunum, var vinnunni að mestu lokið og gat fjölskyldan í kjölfarið flutt inn. Um er að ræða 325 fermetra hús á tveimur hæðum og með fimm svefnherbergjum.
Cara segir að vinnan hafi verið mjög erfið og krefjandi en algjörlega þess virði. Verkefnið hafi krafist mikillar samvinnu og fjölskyldan standi eftir samrýmdari en nokkru sinni fyrr. „Líkamlega séð var þetta mjög erfitt. Börnin tóku mjög virkan þátt í þessu. Ég vann allan daginn við að byggja húsið og þegar börnin komu heim úr skólanum fóru þau beint að vinna við smíðina. Við unnum oft langt fram á kvöld – með ljós á höfðinu,“ segir hún og bætir við að börn hennar hafi gefið sig öll í verkefnið. Félagslífið, og meira að segja stefnumót, var sett til hliðar.
Bók Cöru um þetta mikla ævintýri kom í verslanir þann 24. janúar síðastliðinn en í henni deilir hún góðum ráðum með lesendum sínum. Þá ræðir hún einnig um viðskilnaðinn við eiginmann sinn og lífið sem hún lifði í skugga heimilisofbeldis.