fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024

Magnús Ver rifjar upp mestu eftirsjána á ferlinum: „Ég gerði afdrifarík mistök“

Kristinn H. Guðnason
Miðvikudaginn 10. apríl 2019 17:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Magnús Ver Magnússon, einn sigursælasti aflraunamaður sögunnar, hefur verið viðloðandi kraftasport síðan hann var unglingur á Seyðisfirði, en aflið fékk hann við bústörf í Jökulsárhlíðinni sem polli. Blaðamaður DV settist niður með Magnúsi og ræddi við hann um æskuna, einstakan feril, samferðamennina, hleranir, núverandi störf og heilsu.

 

Allt þurfti að vera erfitt

Magnús Ver fæddist á Egilsstöðum árið 1963. Fyrstu árin bjó hann á sveitabæ ömmu sinnar og afa í Jökuldalnum.

„Ég vildi alltaf fá mjólk beint úr beljunni. Á þessum tíma voru kýrnar handmjólkaðar og ég fékk alltaf glas af ylvolgri mjólk eftir mjaltir. Annars var ég ósköp venjulegur krakki og ekkert mjög óþægur,“ segir Magnús um æskuárin í sveitinni.

Amma hans og afi brugðu búi um það leyti sem skólaganga Magnúsar hófst og þá fluttist hann til Reykjavíkur með móður sinni, Elsu Jónsdóttur, og fósturföður, Hreggviði M. Jónssyni. Faðir Magnúsar, sem hann var skírður í höfuðið á, féll frá þegar hann var mjög ungur. Þrjú yngri hálfsystkini á Magnús en eldri hálfsystir hans er fallin frá.

Magnús gekk í Austurbæjarskólann og Fellaskólann til tólf ára aldurs en þá flutti hann austur til Seyðisfjarðar. Á hverju ári var Magnús sendur í sveit, á Torfastaði í Jökulsárhlíð, þar sem Hreggviður ólst upp en bróðir hans rak þar býli.

„Þetta var nú sérstakur karl,“ segir Magnús og brosir. „Það mátti ekkert gera á auðvelda mátann. Það þurfti allt að vera erfitt. Hann var með þeim fyrstu í sveitinni til að fá sér bindivél en hjá okkur voru bundnir stærstu og þyngstu baggarnir í sveitinni. Svo þurfti ég að bera þá.“

Varðst þú hraustur af verunni þar?

„Að stórum hluta, já. Ég gekk í öll bústörf, alveg sama hvað það var, og þótt ég hafi aðeins verið tólf ára gamall. Þetta voru góðir tímar. Ég keyrði traktor, sló og rakaði. Stundum keyrði ég vörubílinn.“

Það er aldrei langt í brosið hjá Magnúsi, sérstaklega þegar hann rifjar upp þessa gömlu tíma.

Ungstirni
Kraftlyftingamaður ársins 1987.

Þarna verð ég einn daginn

Unglingsárunum varði Magnús á Seyðisfirði. Mikil vatnaskil urðu í lífi hans í kringum átján ára aldurinn þegar lögreglumaðurinn og kraftlyftingamaðurinn Óskar Sigurpálsson flutti í bæinn. Hann hafði meðal annars keppt tvívegis á Ólympíuleikum og var talinn faðir lyftinganna á Íslandi.

„Eftir að hann kom á staðinn voru keypt tæki til lyftinga, stangir, lóð og þvíumlíkt. Við strákarnir vildum ólmir komast í þetta og byrjuðum að lyfta. Ég reyndi aðeins fyrir mér í fótbolta og frjálsum íþróttum á þessum árum líka. Aðallega kastgreinunum fyrir ÚÍA. En hugurinn hneigðist sífellt meira að lyftingunum.“

Magnús hóf að keppa á Íslandsmótum í lyftingum og gekk vel. Rúmlega tvítugur flutti hann til Reykjavíkur og hóf vélvirkjunarnám í Iðnskólanum. Óskar var þá einnig fluttur aftur suður og hafði ásamt fleirum opnað lyftingaaðstöðu í Engihjallanum og Magnús æfði hjá honum. Sú stöð tók við af hinu gamla Jakabóli í Laugardalnum. Um tíma höfðu kraftamenn einnig aðstöðu við Smiðjuveg skammt frá þeim stað þar sem hið nýja Jakaból stendur nú. Mikil gróska var í kraftlyftingunum á þessum árum. Skúli Óskarsson hafði sett heimsmet og Jón Páll Sigmarsson var kominn fram sem ný stjarna.

„Ég man eftir að hafa séð Jón Pál standa á pallinum og kallað þessa frægu línu: „Ekkert mál fyrir Jón Pál!“ Þá sagði ég við félaga mína sem horfðu á þetta með mér: „Bíðið bara, þarna verð ég einn daginn.“ Þeim fannst þetta voða fyndið. En hlógu ekki að þessu nokkrum árum síðar,“ segir Magnús og glottir.

Magnús leit mjög upp til Jóns Páls á þessum tíma. Hann átti þó einnig fyrirmyndir úti í heimi, Bandaríkjamennina Ed Coan og Bill Kazmaier. Leiðir Magnúsar og Kazmaier áttu eftir að liggja saman síðar.

 

Magnús árið 1995
Hugsaði margsinnis um að hætta.

Ekki heppni

Magnús segir sína gæfu hafa verið fólgna í því að taka mjög vel við þjálfun.

„Ég var að gera nákvæmlega sömu æfingar og margir aðrir en ég bætti mig meira. Margir undruðust á því hversu vel líkaminn aðlagaðist þjálfuninni. Ég setti unglingamet og Íslandsmet. Síðan fór ég út og varð Evrópumeistari og vann stigakeppnina, sem var mjög óvenjulegt fyrir mann í þyngri flokk, 125 kílógramma. Yfirleitt voru það 60 kílóa mennirnir sem unnu það.“

Hann fór einnig að fikta við aflraunir á þessum tíma. Fyrsta stóra mótið var á Húsavík og hljóp Magnús þá í skarðið fyrir Jón Pál sem var meiddur. Einnig keppti hann á aflraunamótum í Skotlandi og í Kanada. Gekk Magnúsi svo vel að hann fékk boð um að vera varamaður í keppninni Sterkasti maður heims árið 1991 á Tenerife. Sá hann þá einnig um að prófa greinarnar fyrir sjónvarpsmyndavélarnar. Fimm vikum fyrir keppnina fékk Magnús símhringingu þar sem honum var sagt að Jón Páll hefði rifið upphandlegginn og þeir vildu að hann hlypi í skarðið.

Þetta voru stórir skór til að stíga í?

„Já, Jón Páll var ríkjandi meistari og hafði unnið fjórum sinnum. Mér fannst mikill heiður að fá að keppa fyrir Íslands hönd. Auðvitað var þetta samt pressa. Við Jón Páll vorum búnir að vera mjög jafnir á aflraunamótunum um sumarið. Ég var í mjög góðu formi og tilbúinn í allt. En þegar ég hitti hina keppendurna á flugvellinum í London fannst mér ég vera pínulítill.“

Þarna voru meðal annarra mættir hinn 213 sentimetra hái Hollendingur Ted Van Der Parre og Austurríkismaðurinn Manfred Höberl með sína tröllvöxnu upphandleggi. Þrátt fyrir þetta vann Magnús keppnina með töluverðum yfirburðum. Hann var svo langt á undan að í síðustu greininni þurfti hann ekkert að leggja á sig.

„Eftir keppnina var byrjað að skvaldra um að þetta hefði verið heppni. Minnt var á að hvorki Jón Páll né Jamie Reeves, tveir síðustu meistarar, hefði verið þarna. Til þess að sanna að þetta hefði ekki verið heppni hélt ég áfram,“ segir Magnús.

 

Annar sigurinn sætastur

Árið eftir var keppnin haldin á Íslandi. Magnús var þar grátlega nálægt sigri en hafnaði í öðru sæti á eftir Van Der Parre með aðeins eins stigs mun.

„Ég gerði afdrifarík mistök með Húsavatnshelluna í síðustu grein. Ég lyfti henni allt of hátt því mér fannst hún svo létt en sá ekki hvert ég var að ganga. Auk þess lagðist hún á brjóstkassann og hefti öndunina. Þegar ég reyndi að láta hana síga missti ég hana. Þetta kostaði mig titilinn.“

Var þetta mesta eftirsjáin á ferlinum?

„Já, ég átti að vinna þetta. Ég var með sigurinn í höndunum. Auk þess var ég á heimavelli.“

Aftur hafnaði Magnús í öðru sæti árið 1993 í Frakklandi. En sú keppni var háð skömmu eftir sviplegt fráfall Jóns Páls. Hafði það mikið að segja fyrir Magnús.

„Hausinn á mér var ekki á réttum stað. Eftir þá keppni áttaði ég mig samt á því að ef ég hefði unnið mína heimavinnu hefði ég sigrað. Þetta hvatti mig til að æfa stífar og undirbúa mig betur. Keppnin árið 1994  í Suður-Afríku var mjög hörð og Manfred Höberl hafði verið hálfósigrandi þá um sumarið. Þetta endaði í einvígi með steinana á milli mín og hans og ég hafði betur. Þetta var mín stærsta stund á ferlinum og jafnframt erfiðasta mótið. Ég var svo úrvinda að ég neitaði að taka flugið heim daginn eftir. Ég kláraði mig alveg og ætlaði ekki að halda áfram. Svo gleymdi ég því auðvitað,“ segir Magnús og hlær.

Tvö næstu mót, á Bahamaeyjum og Máritíus, vann Magnús nokkuð örugglega. Aðeins hann og Bill Kazmaier hafa unnið keppnina þrisvar sinnum í röð.

Magnús og Bill Kazmaier
Háðu miklar rimmur á sínum tíma.

Gaf Kazmaier olnbogaskot eftir svindl

Hverjir voru þínir helstu styrkleikar?

„Ég var sagður hraður, úthaldsgóður og gripsterkur. En mér gekk alveg jafn vel í greinum sem gengu út á hrátt afl. Minn styrkur var að vera jafn góður í öllu. Það er hægt að vinna svona mót án þess að vinna eina einustu grein, það er ef þú ert annar í þeim öllum. Ég vildi aldrei vera of þungur, yfirleitt létti ég mig fyrir keppni til að verða hreyfanlegri og hafa betra úthald. Flestir aðrir þyngdu sig fyrir mótin.“

Magnús keppti á fjölmörgum öðrum aflraunamótum, þar á meðal í liðakeppni með Hjalta Úrsus Árnasyni á Pure Strength. Árið 1989 lentu þeir í óvæntri uppákomu gegn ameríska liðinu sem samanstóð af Bill Kazmaier og O.D. Wilson heitnum.

Pure Strength 1989
O.D. liggur óvígur eftir tunnuna.

„Við vorum að hlaupa með tunnur eftir ákveðinni leið. Við þurftum að hlaupa í gegnum göng og það var ekki mikið pláss inni í þeim. Kazmaier var það sem kallast mætti „dirty player“,“ segir Magnús og hlær. „Sérstakur karl og virtist þrífast á því ef hann gat komist upp með eitthvert svindl. Hann var búinn að vera að ýta á mig inni í göngunum en ég lét það ekki á mig fá. Síðan gerðist það að Wilson réð ekki við sína tunnu og missti hana yfir vegg ofan af brú. Hann þurfti síðan að sækja hana undir brúna. Kazmaier sá hvað kom fyrir félaga sinn og vildi tefja mig á meðan Wilson sótti tunnuna. Þá ýtti hann við mér svo að ég missti mína tunnu yfir vegginn en hún lenti ofan á Wilson.“

Wilson náði að sjá tunnuna í tæka tíð og slasaðist aðeins minniháttar á hönd og í baki.

„Hann var hálf vankaður þarna í svolitla stund. Ef þetta hefði verið einhver annar en þetta tröll þá hefði þetta getað farið verr.“

Hvernig brugðust þið við þessum óheiðarleika Kazmaier?

„Það var ekki sýnt í útsendingunni, en það fauk vel í mig. Fólk kom úr öllum áttum og þurfti að ganga á milli okkar. Ég gaf karlinum gott olnbogaskot á kjálkann,“ segir Magnús og skellihlær.

O.D. Wilson, sem lést árið 1991, var mikið naut að burðum. Magnús segist aldrei hafa litist á Wilson þegar hann var reiður og beitti því ákveðinni aðferð gegn honum.

„Ég sagði honum oft brandara fyrir greinar til að létta lundina hjá honum. Þar með varð hann viðráðanlegri.“

 

Sterkasti maður heims
Magnús heldur hér tveimur bifreiðum.

Vildi ekki apa eftir Jóni Páli

Talið berst aftur að Jóni Páli enda hann og Magnús Ver oft nefndir í sömu andrá. Jón og Magnús voru harðir keppinautar en að sama skapi góðir vinir og Magnús segist eiga honum margt að þakka.

Þið unnuð báðir fjóra titla, hvor ykkar var sterkari?

„Allir eru menn síns tíma,“ segir Magnús og hikar svolitla stund uns hann glottir og segir: „En ég bætti öll metin hans.“

Jón Páll lést aðeins 32 ára gamall í æfingastöð sinni Gym 80 árið 1993. Var hann mikill harmdauði fyrir bæði aflraunaheiminn og þjóðina alla.

„Þetta var heilmikið áfall,“ segir Magnús með þunga. „Ég var akkúrat að koma á æfingu þegar þetta var að gerast. Hann var nýdottinn niður og það var verið að hnoða og blása í hann. Ég rétt sá þetta og fór þá strax fram aftur. Þetta var ekki eitthvað sem maður vildi horfa á. Síðan kom sjúkrabíllinn og sótti hann og ég fór heim. Það var engin æfing þann daginn. Og ekki þann næsta heldur. Það var ákaflega mikill missir að þessum manni. Ég fæ stundum þessa undarlegu tilfinningu, mig dreymir að hann sé á lífi. Enn þá er maður ekki búinn að meðtaka það að fullu að karlinn hafi farið.“

Eins og flestir vita var Jón Páll afar líflegur persónuleiki og nokkurs konar holdgervingur níunda áratugarins.

„Ég hef fengið spurningar um það af hverju ég væri ekki eins; kallandi „I am the viking“ og allt þetta. En það hefði verið kjánalegt ef ég hefði farið að apa eftir honum. Þetta var Jón. Ég vildi vera minn karakter.“

Hvernig tókst þú á við frægðina?

„Ágætlega. Þetta gat stundum verið skrýtið en ég passaði upp á að sinna aðdáendum. Þegar verið var að skrifa eiginhandaráritanir stóð ég alltaf lengst. Auðvitað gat þetta verið ónæði, til dæmis í skemmtanalífinu þegar menn voru endalaust að biðja mig að taka sjómann við sig. Ég sagði þá: Nei, þú ert svo hrikalegur að ég þori ekki í þig.“

 

Kom aflraunum fatlaðra á fót

Magnús hefur verið viðloðandi kraftasport alla tíð síðan. Eftir keppnina 1996 hélt hann áfram að keppa en lét Sterkasta mann heims eiga sig. Síðast vann Magnús titilinn Sterkasti maður Íslands árið 2004, þá 41 árs gamall. Í dag ferðast hann mikið um heiminn, heldur fyrirlestra, dæmir mót, ráðleggur og skipuleggur. Hann er í forsvari fyrir Félag kraftamanna sem reka æfingaaðstöðuna Jakaból. Einnig aðstoðar hann Andrés Magnússon við uppsetningu á keppnisbrautum fyrir Skólahreysti. Það sem Magnús er hvað stoltastur af er keppnin Sterkasti fatlaði maður heims. Arnar Már Jónsson kom keppninni á legg fyrir um sautján árum og Magnús kom að verkefninu sem hefur dafnað með hverju árinu.

„Við vorum einir í heiminum í mörg ár. En síðan fór þetta út fyrir landsteinana og er nú orðið að alheimsíþrótt, aflraunir fatlaðra. Hvert landið bætist við af öðru og þýskt fyrirtæki að nafni ATX hefur stutt verkefnið dyggilega. Næsta aðalkeppni verður haldin í júní í Kanada.“

Af hverju byrjuðuð þið á þessu?

„Þetta er hluti af því að gefa til baka. Það eru fáir jafn þakklátir og fatlaðir og það er ákaflega gefandi að starfa við þetta. Fram að þessu var ekkert í boði fyrir fatlaða kraftamenn annað en að lyfta. Við sýndum fram á að þeir geta gert mun fjölbreyttari hluti í kraftasporti. Bera kúlusteina og hvað eina. Sumt höfum við rekið okkur á að virkar ekki, til dæmis að draga bíla á eftir sér í hjólastólum. En þeir geta vel dregið þá að sér.“

 

Ekki venjuleg líkamsræktarstöð

Eftir að Félag kraftamanna endurreisti nafnið Jakaból hefur æfingastöðin verið á nokkrum stöðum. Fyrst í Þverholti í gömlu Sólar-verksmiðjunni til ársins 2012. Þá uppi í Arnarbakka, í kjallara þar sem áður var verslunin Breiðholtskjör. Í byrjun árs flutti Jakaból að Smiðjuvegi.

„Við viljum vera út af fyrir okkur og aðrir vilja síður vera innan um okkur,“ segir Magnús og hlær. „Það eru oft mikil læti þegar þyngstu lóðunum er lyft. Jakaból er ekki venjuleg líkamsræktarstöð. Þetta er um áttatíu manna félagsskapur eða klúbbur þar sem hver og einn er með sinn lykil. Gestir geta litið inn á ákveðnum tíma dagsins, en það er engin afgreiðsla eða slíkt.“

Magnús segir að flutningurinn nú síðast hafi að hluta til verið pólitískur. Reykjavíkurborg keypti húsnæðið í Arnarbakka af leigjanda Félags kraftamanna. Hann samdi hins vegar við borgina um að félagið fengi að leigja aðstöðuna eins lengi og hægt var.

„Síðan höfðu þeir hjá borginni samband við mig og sögðust þurfa að hækka leiguna því þeir hefðu keypt eignina dýru verði. Hækka hana um rúm hundrað prósent. Ég sagði það ekki koma til greina og að við færum þá út. Ég fékk einnig veður af því að þeir hefðu verið fúlir af því að ég hafði sett út á Dag borgarstjóra í nokkur skipti á Facebook. Það var alveg greinilegt að þeir vildu losna við okkur fyrst ég var ekki Dags maður,“ segir Magnús og hlær dátt. „Allt í lagi með það. Ég fór og fann þetta fína húsnæði við Smiðjuveg. Á sama fermetraverði og borgin var að biðja um en á jarðhæð og með stórum gluggum.“

 

Símhleranir byggðar á sögusögnum

Árið 2015 vann Magnús mál gegn íslenska ríkinu og hlaut miskabætur vegna ólöglegrar meingerðar af hálfu lögreglunnar. Höfðu símar hans og fjölskyldumeðlima verið hleraðir og eftirlitsbúnaður verið settur í bifreið hans. Eftir þriggja ára rannsókn var Magnús loks látinn vita.

„Ég vissi aldrei fyrir víst af hverju þetta kom til, en tel mig vita það. Ég var að taka að mér stráka sem höfðu lent í fangelsi og voru komnir á Vernd, en það er áfangaheimili fyrir fanga sem eru að ljúka afplánun. Margir þeirra voru með vafasama fortíð og tengsl inn í fíkniefnaheiminn. Þeir voru því hjá mér sex tíma á dag við að dytta að ýmsu á stöðinni. Lögreglan fór og fékk heimild til símhlerunar út frá einhverjum sögusögnum. Þeir þurftu ekki að hafa neitt annað til að fá að hlera.“

Ekki var aðeins sími Magnúsar hleraður heldur einnig sími dóttur hans, sem var skráður á hann.

„Þegar þeir heyrðu ekki neitt grunsamlegt töldu þeir að ég hlyti að vera að nota samskiptaforritið Skype í símanum. En ég var með gamlan síma sem studdi ekki einu sinni það forrit. Svo fengu þeir heimild til að setja hlerunar- og eftirlitsbúnað í bílinn minn. Svo gerðu þeir það sama við sendibíl sem ég leigði til að flytja aflraunabúnað, því þeir voru sannfærðir um að ég væri að fara að sækja eitthvert góss. Þeir þurftu að brjótast inn í bílana til að gera þetta. Beinar hleranir stóðu yfir í mánuð en málinu héldu þeir opnu í þrjú ár. Væntanlega voru þeir að vona að eitthvað myndi detta inn á borð til þeirra sem myndi styðja allar þessar aðgerðir og allan þann pening sem þeir voru búnir að setja í málið.“

Einn dag árið 2014 fékk Magnús síðan hringingu frá lögreglunni.

„Ég var staddur í bíl þegar ég var látinn vita af því að ég hefði sætt rannsókn og svo ætlaði náunginn í símanum að kveðja án þess að segja af hverju. Síðan sveik hann það að senda mér málsnúmerið. Ég fékk mér lögfræðing til að krefja þá svara en það reyndist þrautin þyngri. Það átti að þagga málið niður. Því var ekki um annað að ræða en að draga þá fyrir dóm. Við vissum allan tímann að við værum með unnið mál og bæturnar voru ekki aðalmálið. Við vildum sýna þeim fram á að svona meðferð væri ekki í lagi.“

Sýndi lögreglan einhverja viðleitni til að bæta þér þetta eða rétta þinn hlut?

„Nei, aldrei. Þvert á móti, á þessum tíma, gerðu þeir í því að stoppa mig í umferðinni. Mér fannst svo merkilegt að fyrst þeir voru svona vissir í sinni sök af hverju mættu þeir þá ekki með leitarheimild, það gerðist aldrei.“

Misstir þú álit á lögreglunni?

„Þeir hafa ákveðna vinnuferla og aðferðir sem að mörgu leyti eru skiljanlegar. En miðað við það hvernig þeir fengu þessar heimildir í gegn þá virtust þeir ekki víla það fyrir sér að ljúga. Það er fjöldi góðra manna í lögreglunni sem vinna sín störf af heilindum. En því miður eru skemmd epli inni á milli.“

 

Titillinn kominn heim

Á síðasta ári vann Hafþór Júlíus Björnsson keppnina Sterkasti maður heims. Er það fyrsti titill Íslands síðan Magnús vann árið 1996. Nokkuð langur aðdragandi hefur verið að titlinum og Hafþór verið á verðlaunapalli öll árin frá 2012.

Þú uppgötvaðir Hafþór, var það ekki?

„Já, ég æfði um tíma í Sporthúsinu áður en við opnuðum Jakaból. Þar rakst ég á þennan síðhærða slána og spurði hvort hann væri ekki til að prófa aflraunir. Það væri ýmislegt hægt að gera við svona stóran skrokk. Hann lét tilleiðast og mætti á Vestfjarðavíkinginn. Þar sjokkeraði hann alla hina strákana með því að vinna strax fyrstu greinina, legsteinagönguna. Eftir það varð ekki aftur snúið og hann fylgdi okkur inn í Jakaból. Síðan hefur hann opnað sína eigin aðstöðu.“

Hvernig er hann í samanburði við ykkur Jón Pál?

„Sportið hefur breyst gífurlega og í dag er einblínt meira á styrk en fimi. Það eru meiri þyngdir og styttri vegalengdir. Þetta gerir það að verkum að þessir stærri og þyngri menn gera betur en áður fyrr. Þessir strákar í dag eru líka betur þjálfaðir sem aflraunamenn. Við Jón æfðum aldrei kúlusteina en vorum bestir í þeim á mótum. Í dag æfa menn kúlusteina, drumbalyftu og allt saman. Þetta er orðin meiri atvinnumennska, mótin fleiri og peningarnir meiri. Hafþór var búinn að vera nálægt titlinum lengi og ég vissi alltaf að það kæmi að sigrinum. Eins og staðan er í dag virðist hann bera höfuð og herðar yfir alla aðra. Ég var að aðstoða hann við æfingar áður fyrr. Þetta var strákur sem maður gat hálfdrepið á æfingu en hann kom samt daginn eftir og bað um meira.“

 

Reynir stofnfrumumeðferð

Öll þessi ár af átaki hafa tekið sinn toll hjá Magnúsi. Nú er svo komið að hnén eru farin að gefa sig vegna slitgigtar og Magnús fékk þann dóm frá læknum að skipta þurfi þeim út.

„Næstkomandi maí fer ég út til Belgíu í stofnfrumumeðferð. Þetta eru óhefðbundnar lækningar en þess virði að láta á þær reyna. Samkvæmt kenningunni á þetta að draga úr verkjum og frumurnar eiga að mynda nýtt brjósk. Einn félagi minn fór þarna út í sams konar aðgerð og líður mun betur eftir hana. Ég vil prófa allt áður en ég fer í hnéskipti.“

Auk þess er hálsinn stífur eftir bílslys sem hann lenti í fyrir um tíu árum. Kom þá mikill hnykkur á hálsinn. Aðeins tveimur mánuðum síðar var keyrt aftan á hann á mótorhjóli. Kom þá aftur hnykkur á hálsinn og getur Magnús vart snúið honum til að líta aftur fyrir sig.

„Ég ríf nú lítið í lóðin núorðið,“ segir Magnús. „Hnén leyfa það ekki og öxlin er orðin slæm líka. Ég æfi minna en ég vildi gera. Alltaf eitthvað samt, því að ég verð verri ef ég sleppi því. Eins og hjá öllum öðrum sækir aldurinn að. Það er búið að nota þennan skrokk og hann er búinn að gera hluti sem hann átti ekki að geta gert.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Þessir tíu leikskólar hafa samþykkt að fara í verkfall 10. desember

Þessir tíu leikskólar hafa samþykkt að fara í verkfall 10. desember
Pressan
Fyrir 7 klukkutímum

Maðurinn sem sviðsetti dauða sinn og yfirgaf konu og börn vill ekki segja hvar í Evrópu hann er

Maðurinn sem sviðsetti dauða sinn og yfirgaf konu og börn vill ekki segja hvar í Evrópu hann er
Eyjan
Fyrir 10 klukkutímum

Óánægjan með Einar og meirihlutann í borginni fer vaxandi en flokkarnir tapa mjög misjafnlega á því

Óánægjan með Einar og meirihlutann í borginni fer vaxandi en flokkarnir tapa mjög misjafnlega á því
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Breiðablik staðfestir komu Valgeirs

Breiðablik staðfestir komu Valgeirs
Eyjan
Fyrir 11 klukkutímum

Stórtíðindi í nýrri könnun: Viðreisn spólar fram úr Samfylkingu – Framsókn á útleið?

Stórtíðindi í nýrri könnun: Viðreisn spólar fram úr Samfylkingu – Framsókn á útleið?
Fókus
Fyrir 11 klukkutímum

Fjör og flottheit á forsýningu IceGuys 2

Fjör og flottheit á forsýningu IceGuys 2