fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fréttir

Þórður hneykslaður á skipun Sveins Andra: „Í kringum mig hrópa mjög margir spilling í hástöfum

Erla Dóra Magnúsdóttir
Þriðjudaginn 2. apríl 2019 12:23

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lögmaðurinn Þórður Már Jónsson gagnrýnir skipun Sveins Andra sem skiptastjóri WOW og gengur skör lengra en aðrir hafa gert í umræðunni og sakar héraðsdóm um að úthluta Sveini bestu bitunum með hentistefnu. Símon Sigvaldason, dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur, vísar þeim ásökunum alfarið á bug og segir ásakanir um spillingu vera alvarlegar.

Þórður Már skrifaði harðorða færslu á Facebook-síðu sína sem sitt innlegg í umræðuna um skipun Sveins Andra Sveinssonar sem annars skiptastjóra þrotabús WOW air.

„Ekki af því að karlar fái úthlutað umfram konur, heldur af því að það er eitthvað stórlega mikið sem ekki stemmir varðandi það hvernig þrotabúum er úthlutað til lögmanna sem taka að sér skiptastjórn. Ég var farinn að velta þessu fyrir mér áður en að þessari skipun kom, en þarna tók steininn úr.“

Ekki sömu lögmál fyrir alla?

Hann vísar til ummæla Símonar Sigvaldasonar, dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur, þar sem hann sagði skipun fara eftir lista lögmanna sem rúlli jafnt og þétt í gegn, og segir ummælin vera sönn að vissu leyti, en ekki þegar komi að Sveini Andra.

„Hann fær ekki einu sinni á rúmlega ári úthlutað TVEIMUR þrotabúum eins og við hinir lögmenn. Og þá báðum í einu, eða því sem næst. Nei, hann fær oftast úthlutað einu búi í einu og augljóslega oftar en ekki stóreignabúum.“

„Sveinn hefur einnig fengið fjórum þrotabúum úthlutað í heilum þremur hollum frá því ég fékk síðustu úthlutun.“

Þórður gengur jafnvel það langt að ásaka Símon um hreinar og beinar lygar.

„Það er hrein og klár lygi hjá Símoni þegar hann segir að listinn rúlli jafnt og þétt og í réttri röð!!! Listinn hvað Svein Andra varðar rúllar að því er virðist í allt öðrum takti en hjá öllum öðrum sem ég þekki. Bæði fær hann fleiri bú og síðan fær hann gjarnan eitt í einu með nokkurra mánaða millibili en ekki 2 í einu eins og aðrir. Ef listinn myndi rúlla eins og Símon segir þá myndu sömu lögmál gilda fyrir alla. Það er hins vegar ekki svo.“

„Ég veit ekki hvað maður á að halda um þetta, en einhverjir eru farnir að nefna orðið spilling. Ég veit ekki hvað ég á að halda persónulega, en það er ljóst að eitthvað er ekki eins og það á að vera. Bara alls ekki. Hvers vegna það er þori ég ekki að segja til um. Það verða aðrir að geta í eyðurnar með það.“

„Hrópa spilling í hástöfum“

Þórður stóð við þessi ummæli sín í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. „Í kringum mig hrópa mjög margir spilling í hástöfum,“ sagði Þórður og segir það ólíðandi að héraðsdómstólar úthluti svona umfangsmiklum hagsmunum eftir eigin hentistefnu. Þeir eiga ekki að geta komist upp með það að nota einhverja svona hentistefnu við úthlutun á svona miklum hagsmunum.“ Þórður segir marga aðra lögmenn sem hann þekki vera jafnhæfa Sveini til að taka að sér skiptastjórn í þrotabúi af þessari stærð, þeir komi hins vegar aldrei til álita.

„Það er ekkert gagnsæi sem er haft að leiðarljósi við þessar úthlutanir og skipanir.“

Skipun Sveins Andra þykir sérstaklega undarleg í ljósi þess að hann er þegar að skipta öðru stóru þrotabúi, EK1923, og á í deilum við kröfuhafa búsins vegna þeirrar þóknunar og kostnaðar sem hann hefur reiknað sér. Einnig í ljósi þess að tímagjald Sveins er um tvöfalt það sem gengur og gerist meðal lögmanna á Íslandi. Þau þrotabú sem Sveinn Andri hefur fengið til skipta séu oft af þeirri stærð að fyrirfram megi vita að eignir finnist í búinu, sem þýðir oft meiri tekjur fyrir skiptastjórann.

Vísar ásökunum á bug

„Umræða á þeim nótum sem verið hefur undanfarna daga kallar oft á tíðum fram slæmar hliðar fólks. Það er miður að sjá ágæta lögmenn detta í þær grafir að fara með slík gífuryrði og ásakanir um spillingu eru alvarlegar,“ sagði Símon Sigvaldason, dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur, í samtali við Vísi og vísar ásökunum Þórðar á bug.

„Ég hef látið telja saman, í tilefni af þessari umfjöllun allri, hve mörg bú lögmenn hafa fengið síðustu 6 ár. Ég minni á að listinn rúllar í réttri röð. Ég gerði talningu þar sem fram kemur að lögmenn hafa verið að fá að jafnaði 21 til 22 mál í heildina síðustu 6 ár. Þeir fá úthlutað einu sinni á ári og nú er tveim búum úthlutað í einu. Þegar fleiri bú voru að koma inn var fleiri búum úthlutað í einu.

„Þar hafa gilt önnur viðmið, eins og fram hefur komið. Ég tók ákvörðun um að úthluta Þorsteini Einarssyni og Sveini Andra Sveinssyni þrotabúi WOW air. Ég held að með sanngirni megi segja að engin slík tengsl séu á milli mín og Sveins Andra að hægt sé að halda því fram að ég hafi ástæðu til að hygla honum.“

Þrotabú WOW er með þeim stærri, ef ekki það stærsta, þrotabú sem verður til á Íslandi eftir hrun og afar líklegt er að tíma taki að skipta því. Þarna eru því miklir fjárhagslegir hagsmunir í húfi fyrir þann aðila sem sér um skiptastjórn. Símon Sigvaldason hefur viðurkennt í samtali við Vísi að hann hafi tekið ákvörðun um að úthluta Þorsteini Einarssyni og Sveini Andra þrotabúinu sérstaklega, án þess að fara eftir listanum sem hann hefur sagt að farið sé að jafnaði eftir. Símon hefur þó ekki rökstutt af hverju það varð að vera Sveinn Andri.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Erna segir skilið við Miðflokkinn en hafði sóst eftir oddvitasæti – „Miðflokkurinn gekk úr mér“

Erna segir skilið við Miðflokkinn en hafði sóst eftir oddvitasæti – „Miðflokkurinn gekk úr mér“
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Össur tætir Pírata í sig: „Málefnalega skipta þau ekki lengur máli“

Össur tætir Pírata í sig: „Málefnalega skipta þau ekki lengur máli“
Fréttir
Í gær

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“
Fréttir
Í gær

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“