fbpx
Miðvikudagur 17.júlí 2024
FókusKynning

Heilsudrykkir draga úr upptöku andoxunarefna

Líkaminn minnkar upptöku andoxunarefna við mikla neyslu – Algengar mýtur um næringu afhjúpaðar

Ritstjórn DV
Laugardaginn 4. febrúar 2017 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þegar fólk reynir að selja okkur smúðing og segir að hann bæti á andoxunarefni í líkamanum er það álíka heimskulegt og selja okkur heitt vatn og segja að það hækki líkamshitann.“ Þetta segir dr. Kirsten Brandt í þætti á vegum BBC sem sýndur var á RÚV á mánudagskvöldið. Þar var sjónum beint að svokölluðu heilsu- og ofurfæði og ýmsar mýtur um tilteknar fæðutegundir voru hraktar.

Einn virtasti næringarfræðingur landsins er ánægður með þáttinn og segir sorglegt hvað fólk er ginnkeypt fyrir markaðssetningu, þar sem afurðir, sem ekki eru hollari en ódýrari valkostir, eru seldar dýrum dómum. „Ég vara fólk við að trúa hverju sem er og henda krónunni um leið,“ segir Ólafur Gunnar Sæmundsson, næringarfræðingur og kennari við Háskólann í Reykjavík. Hann er höfundur kennslubókarinnar Lífsþróttur, líklega veigamestu bókar sem út hefur komið um næringarfræði á Íslandi. Í bók sinni hrekur hann margar af þeim mýtum sem til umfjöllunar voru í umræddum þætti á RÚV. Nánar er rætt við Ólaf hér á síðunni.

Sjónvarpskonan Fiona Phillips sýnir fram á að gojiber veita fólki ekki meira af C-vítamíni en jarðarber.
Gojiber Sjónvarpskonan Fiona Phillips sýnir fram á að gojiber veita fólki ekki meira af C-vítamíni en jarðarber.

Mynd: BBC

Andoxunarkraftur smúðinga?

Þátturinn sem um ræðir heitir The truth about eating healthy. Um er að ræða heimildaþátt frá BBC sem rannsakar hvað best sé fyrir manninn að borða og drekka, til að öðlast góða heilsu. Sjónvarpskonan Fiona Phillips fær í þættinum hjálp frá vísindamönnum til að afhjúpa hvaða fæðu og vítamín er skynsamlegast að neyta.

Eitt af því sem tekið er fyrir í þættinum eru svokallaðir heilsudrykkir (smúðingar í þýðingu RÚV) sem eru ríkir af andoxunarefnum. Þar er um að ræða ávexti og grænmeti sem sett er í safapressu og hrært saman. „Það er mikið talað um andoxunarefni núna af því að þau sópa víst upp ýmsum efnum sem gætu reynst frumum líkamans hættuleg og eru talin valda krabbameini og hrörnun. En ég velti fyrir mér hvort það að drekka þetta færi mér þann andoxunarkraft sem ég er að leita að,“ segir Fiona í þættinum.

Eitt prósent efnanna í blóðrásina

Hún ræðir við Gordon McDougall hjá James Hutton Institute, sem sýnir fram á hvað verður um bláberjasafa, sem er ríkur af andoxunarefnum, þegar hann fer í magann og svo þarmana. Hann setur bláberjasafa í vökva sem samanstendur af efnum sem líkja eftir þeim sem eru í maganum. „Í maganum eru þau [efnin] góð og virka sem andoxunarefni. Þau blandast vel.“ Gordon setur safann svo í aðra efnablöndu sem líkir eftir þeim sem eru í þörmunum. „Þegar andoxunarefnin fara inn í þarmana breytast aðstæður og skyndilega eru þau ekki mjög stöðug. Safinn dökknar og nú sérðu að þessir þættir fara að brotna niður sem verður til þess að lítið berst inn í líkamann þar sem þau geta verið virk. Þessi andoxunarefni ná aldrei inn í blóðrásina í því magni sem er í berjunum í upphafi. Um 1 prósent [andoxunarefnanna] fer í blóðrásina,“ segir hann í þættinum.

Gerði tilraun á sjálfri sér

Fiona framkvæmdi einnig tilraun á sjálfri sér. Hún sneiddi hjá grænmeti, ávöxtum, heilkornum og kaffi í 48 klukkustundir, til að finna náttúrulega grunnstöðu andoxunarefna. Í staðinn borðaði hún kartöflur, hrísgrjón, pasta og hvítt brauð. Og drakk mjólk. Því næst var tekið blóðsýni til að mæla náttúrulega stöðu andoxunarefna.

Að svo búnu tók við andoxunarefnakúr með smúðingi. Næstu klukkustundir eftir inntöku voru teknar margar blóðprufur, til þess að athuga hvort neyslan yki andoxunarefni í líkamanum. Dr. Kirsten Brandt, við Newcastle University, rannsakaði blóðið. Mælingar sýndu að í kjölfar þess að Fiona drakk smúðinginn hafi andoxunarefni í líkamanum aukist mikið; mikið af efnunum barst inn í blóðið.

Lækkaði stöðu andoxunarefna

En þar með er sagan ekki öll. „En um leið reynir líkaminn að losa sig við þau því að þessar ókunnu sameindir eiga ekki heima í líkamanum,“ segir hún í þættinum. „Og að lokum verður minna af þeim en fyrir. Á átta tímum [eftir neyslu] kemstu ekki aftur upp í grunnstöðuna.“ Með öðrum orðum leiddi smúðingurinn til þess að minna af andoxunarefnum var í líkamanum, átta tímum eftir inntöku.

Dr. Kirsten Brandt er þó ekki á því að smúðingar séu skaðlegir. „Ég held það nú ekki en þeir eru ekki gagnlegir heldur.“ Hún segir að líkaminn bregðist við og stilli af upptöku efnanna, eftir því hvað honum berst. Líkaminn viðheldur hæfilegri stöðu andoxunarefna í líkamanum og losar sig við umframefni. „Við vitum að andoxunarefni eru í ávöxtum og grænmeti sem eru mikilvægur hluti af hollu mataræði en að kaupa vöru sem á að bæta andoxunarefnastöðuna er peningasóun,“ segir Brandt.

Sorglegt að sjá fólk eyða peningunum í heilsuvörur

Sorglegt að sjá fólk eyða peningunum í heilsuvörur

Ólafur Gunnar er ánægður með þáttinn og flest það sem þar kom fram. Hann segir hins vegar í samtali við DV að í honum hafi svo sem ekkert nýtt komið fram. „Um ýmsa þessa þætti fjalla ég í bókinni minni, til dæmis um ætlaðan undramátt kókoshnetuolíu.“ en í þættinum ræðir Fiona við næringarfræðing sem bendir á að hefðbundin jurtaolía sé ekkert síðri fyrir heilsuna – en margfalt ódýrari.

Ólafur Gunnar fagnar því að þátturinn hafi tekið á detox-ruglinu, sem hann kallar svo. Hann segir að höfuðverkur sem fólk fái þegar það hætti að borða til að „hreinsa líkamann“ sé ekki merki um að eiturefni séu að fara úr líkamanum heldur stafi höfuðverkurinn ekki síst af vökva- og orkuskorti.

Próteinið saðsamastÍ þættinum var líka gerð prófun á hvaða morgunverður reynist veita fólki bestu magafyllina til lengri tíma. Þar hafa soðin egg og grillað beikon yfirhöndina, samanborið við jógúrt og banana annars vegar og hefðbundið morgunkorn hins vegar. Próteinmagnið skiptir þar sköpum en beikon og egg máltíðin innhélt 25 grömm af próteinum á meðan hinar tvær aðeins tíu grömm. En Ólafur Gunnar bendir á að prótein sé saðsamasti orkugjafinn. Í hæfilegu magni sé það góður orkugjafi. Hins vegar vill hann taka fram að þegar verið er að huga að máltíð þarf að taka með í reikninginn fleiri þætti en saðsemi og hvað egg og beikon varðar að þá eru þau snauð af ýmsum mikilvægum næringarefnum svo sem trefjum og mörgum vítamínum og steinefnum. Persónulega segist hann frekar mæla með morgunverði eins og hafragraut með mjólk sem mætti bragðbæta með t.d. rúsínum og hafa svo eitt egg með og ekki gleyma svo að taka inn D-vítamíngjafa eins og eina teskeið af lýsi.Ólafur Gunnar segir að líkaminn sé ansi flinkur að stilla sig af. Ef hann skorti tiltekið næringarefni sé upptaka þess úr mat mjög mikil. Á sama hátt sé upptakan mun minni ef næringarbúskapur líkamans, með tilliti til efnisins, er góður. Hann varar við ofneyslu á hvers kyns næringarefnum. „Ef við spænum í okkur ógrynni af tilteknum næringarefnum þá getur það leitt til þess að líkaminn nái ekki að stilla sig eðlilega af og það leitt til eitrunar, eins og dæmin sanna.“

Gagnrýnir fjölmiðlaHann gagnrýnir fjölmiðla fyrir að dreifa oft á tíðum hálf dulbúnum auglýsingum í formi frétta um gagnsemi „ofurfæðis“ og svokallaðra náttúru- og fæðubótarefna. Hann varar fólk ekki síst við því að taka mark á vörum sem auglýstar eru með reynslusögum. Þær hafi ekkert að segja um raunverulega virkni þess sem er auglýst.

Ólafur Gunnar vill að lokum hvetja fólk til að verða sér úti um ábyggilegar upplýsingar um næringu, svo sem á vef Landlæknis.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Kynning
27.03.2024

Dreymir þig um lúxussiglingu um fallegustu eyjur Króatíu? – Gerðu drauminn að veruleika 

Dreymir þig um lúxussiglingu um fallegustu eyjur Króatíu? – Gerðu drauminn að veruleika 
Kynning
27.03.2024

„Algjört saunaæði runnið yfir landsmenn“

„Algjört saunaæði runnið yfir landsmenn“
Kynning
26.01.2024

Vetrarsýning Heklu – Frumsýnum Volkswagen Touareg og rafmagnaðan ID.7

Vetrarsýning Heklu – Frumsýnum Volkswagen Touareg og rafmagnaðan ID.7
Kynning
23.01.2024

Tífalt meira magn af „bótoxi jurtaríkisins“ í nýju serumi frá Nivea

Tífalt meira magn af „bótoxi jurtaríkisins“ í nýju serumi frá Nivea
Kynning
06.11.2023

Æfinga eða keppnisferð íþróttafélaga í útlöndum

Æfinga eða keppnisferð íþróttafélaga í útlöndum
Kynning
29.10.2023

Flýgur með Íslendinga til paradísarinnar Punta Cana í myrkasta skammdeginu – „Ég skildi við kallinn en ekki landið“

Flýgur með Íslendinga til paradísarinnar Punta Cana í myrkasta skammdeginu – „Ég skildi við kallinn en ekki landið“