fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fókus

Gísli dansar á bjargbrúninni í veislustjórn: „Mannréttindi að fá að vera tekinn fyrir í gríni“

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 31. mars 2019 08:26

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gísli Einarsson er fyrir löngu orðinn landsmönnum að góðu kunnur. Hann hefur starfað við fréttamennsku og dagskrárgerð hjá RÚV í hartnær tvo áratugi og haldið uppi fjöri á árshátíðum og þorrablótum jafn lengi. Blaðamaður DV keyrði í Borgarnes einn blíðviðrisdag til að ræða við Gísla, en þar býr hann og hefur starfsaðstöðu.

Þetta er brot úr stóru viðtali í helgarblaði DV.

 

Dansar á bjargbrúninni

Á upphafsárum Skessuhorns vakti Gísli athygli fyrir leiðara sína í Skessuhorni og opnuðust þá óvænt tækifæri.

„Mér hefur alltaf fundist leiðarar leiðinlegir og reyndi því að skrifa mína með hæfilegu magni af skætingi og húmor. Það var vegna þeirra sem farið var að leita til mín varðandi veislu- og samkomustjórn. Þetta byrjaði á þorrablótum í héraðinu en vatt síðan fljótt upp á sig. Strax á fyrsta árinu var ég farinn að blaðra á árshátíðum í Reykjavík.“

Er það rétt að þú getir verið djarfari í talsmáta á skemmtunum en í sjónvarpinu?

„Já, stundum. Einn maður sagði að ég kynni að dansa á bjargbrúninni án þess að detta fram af. Það getur verið að ég hafi móðgað einhverja í gegnum tíðina, en vonandi sem fæsta, því það er aldrei ætlunin. Þetta er eins og í fótboltanum, þú skorar ekki nema að skjóta á markið og helst fast. Það er ekki hægt að vera fyndinn án þess að gera grín að neinu.“

Gísli segir að strax í upphafi hafi hann haft ákveðin viðmið. Til dæmis að gera ekki gys að fólki sem er í neyð, ástarsorg eða hefur lent í hörmungum.

„Ég geri hins vegar hiklaust grín að minnihlutahópum,“ segir hann ákveðinn og hlær. „Mér finnst það vera mannréttindi að fá að vera tekinn fyrir í gríni, hvort sem maður á við einhverja fötlun að stríða, tilheyrir ákveðinni kynhneigð eða hvað svo sem það nú er. Annað væri útskúfun. En það er auðvitað ekki sama hvernig grínið er gert. Ég hef ábyggilega stundum farið yfir strikið en reyni að halda mig réttum megin við það.“

Er fólk að öskra fram í?

„Já, það kemur fyrir. En ég er alltaf með tæklingar á lager fyrir þannig uppákomur. Grófar tæklingar,“ segir Gísli og glottir við tönn.

Fyrir tuttugu árum var Gísli með hvert orð skrifað niður í handrit fyrir skemmtanir en með aukinni reynslu noti hann nú aðeins punkta. Eins og uppistandarar endurnýjar hann efnið reglulega og aðlagar það að stað og tilefni.

„Það háir mér samt að ég kemst ekki almennilega í gírinn fyrr en rétt áður en ég mæti á staðinn. Ég fresta því sífellt að undirbúa mig en þegar stressið kemur þá kviknar á mér og hugmyndirnar fæðast.“

Hefur þú lent í því að klúðra skemmtun?

„Ég hef aldrei fengið margar kvartanir eftir skemmtanir, en ég hef hins vegar upplifað að líða ekki vel á eftir skemmtun. Það er þegar mér hefur fundist mér ekki takast vel upp. Samkomur eru misjafnar og sumar móttækilegri en aðrar. Eitt erfiðasta kvöldið sem ég man eftir var á þorrablóti í Garðabæ. Ég vissi að það væru tvö þúsund manns á blótinu en ljósin voru svo sterk að ég sá ekkert og hljóðið svo hátt að ég heyrði ekkert nema í sjálfum mér. Í annað skipti var ég að skemmta á Ingólfstorgi þann 1. maí. Skemmtunin sjálf gekk glimrandi vel en henni var útvarpað. Ég prófaði að hlusta á upptökuna og þá heyrðist enginn hlátur því að hljóðneminn var á sviðinu. Félagar mínir á Ríkisútvarpinu hefðu mátt gera mér þann greiða að setja dósahlátur á upptökuna,“ segir Gísli og við kveðjum hann með virktum.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram