fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fréttir

Einstæð móðir sem er að ferma er föst í viðjum fátæktar – „Mér líður mjög illa“

Ragna Gestsdóttir
Sunnudaginn 31. mars 2019 17:38

Myndin er úr safni

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það býr einhver barátta í mér, af hverju er þetta svona erfitt?“ segir einstæð, nokkurra barna móðir, sem er að ferma núna í apríl. Konan býr utan Reykjavíkur og engin aðstoð í boði þar sem hún býr, en íbúum höfuðborgarinnar stendur einhver aðstoð til boða. Útborguð mánaðarlaun hennar eru jafnhá og leigan sem hún greiðir og berst hún alla mánuði við að ná endum saman. „Ég er í leiguhúsnæði og greiði 200 þúsund krónur í leigu og síðan hita og rafmagn. Ég er að fá útborgað um 200 þúsund krónur á mánuði og húsaleigubætur upp á 50 þúsund krónur.“

Gat ekki staðið við loforð

Konan á foreldra og systkini, en eins og hún segir sjálf þá hefur hver og einn nóg með sitt, þrátt fyrir að allir séu af vilja gerðir til að veita henni aðstoð. „Mér líður mjög illa ef ég þarf að biðja foreldra mína um aðstoð. Þau eiga bara nóg með sitt. En stundum fæ ég matarpoka frá þeim. Ég veit að þau og systkini mín myndu vilja gera allt fyrir mig, en hver og einn á nóg með sitt. Við erum ekki efnamikil fjölskylda,“ segir konan og bætir við að barnsfaðir hennar taki oft ekki vel í beiðni hennar um aðstoð, en hann muni þó greiða einhvern hluta af fermingarkostnaðnum. „En eigi að síður á ég erfitt með að greiða minn hluta. Yfirleitt þegar ég bið hann um aðstoð þá endar það með einhverju rifrildi og það sé mér að kenna hvað hlutirnir kosta í dag.

Ég hef hingað til, eins og um jól og slíkt, sótt um styrk hjá Mæðrastyrksnefnd á Akranesi, en hún hefur bent mér á að tala við prestinn á staðnum, sem vísar mér beint aftur til Mæðrastyrksnefndarinnar.

Fjárhagsstaðan hjá nefndinni er svo bág í ár að hún hefur gefið út að það verði engin páskaaðstoð,“ segir konan. „Það kom tímabil þar sem ég var atvinnulaus. Þá átti ég mjög erfitt og fór nokkrar ferðir til Mæðrastyrksnefndar í Reykjavík og sótti mér aðstoð þar. Og mér þótti það afar erfitt, standa í þessari röð og eins þakklát og ég var fyrir aðstoðina þá fannst mér ég ítrekað vera að koma með eitthvað heim sem hentaði okkur ekki. Á því tímabili þá þurfti ég að fá lánað hér og þar og það hafa orðið vinslit hjá mér þar sem mér tókst ekki að standa við loforð um að greiða til baka.“

Margt dýrt í gangi hjá börnunum

Eins og oft vill verða hjá einstæðum foreldrum sem hafa ekki mikið milli handanna þá er konan búin að vanrækja sjálfa sig. „Ég þyrfti fyrir löngu að vera farin til tannlæknis, en ég skulda honum svo mikið að ég er komin í klípu. Það var byrjað á einhverri rótaraðgerð, svo hætti ég að geta borgað. Ég má ekki eiga greiðslukort og hann vildi ekki semja við mig um greiðslur, þannig að þetta er eitthvað sem ég sé ekki fram á að geta lagað og greitt fyrir.“

Fermingarkostnaður er þó ekki það eina sem setur strik í fjárhaginn í ár. „Það er svo margt dýrt annað í gangi hjá börnunum mínum, eitt þeirra er að fara í ferð á vegum skólans, annað er í Skólahreysti og að fara í skíðaferðalag. Ég er svo glöð þegar þau vilja taka þátt í einhverju að ég get ekki annað en reynt að eiga fyrir slíkum útgjöldum. Fjárhagsáætlunin sem ég var búin að gera, þar sem ég sá fyrir mér að geta skrapað saman 5.000 krónur hér og þar, hún er farin algjörlega út um þúfur.“

Auk þess þarf eitt barna hennar á sérfræðiaðstoð að halda og bendir konan á að þó að tímar hjá sálfræðingi og geðlækni séu endurgreiddir, þá fylgi því samt sem áður kostnaður að koma barninu til læknanna.

„Þarf eitthvað að skreyta?“

Fermingarundirbúningurinn er ekki kominn langt á veg. „Það er ekki mikið komið sem ég er búin að borga, þar sem ég hef ekki átt pening. Matarinnkaupin eru eftir, ég trúi ekki öðru en að við foreldrarnir munum skipta þeim til helminga. Börnin eiga ekki spariföt, við höfum ekki keypt slíkt undanfarin ár, bara reynt að láta þetta sleppa. Ég er ekki einu sinni byrjuð að hugsa um gjöf.

Ég er í hópnum Fermingarundirbúningur á Facebook og ég loka bara augunum þegar ég sé suma póstana þar. Barnið mitt hefur ekki miklar áhyggjur af þessu og spyr bara: „þarf eitthvað að skreyta?“ Þetta verður bara nett hjá okkur, það er allavega ekki mikill peningur að fara í skreytingar.“

Konan segist síðustu ár oft hafa skrópað í veislum sem henni og börnum hennar hefur verið boðið í þar sem hún hefur einfaldlega ekki haft efni á að kaupa gjafir. „Nú ber svo við að um leið og ég er að ferma er okkur boðið í fermingarveislur hjá vinum og ættingjum. Ég vil ekki vera að skrópa hjá fólki sem ég vil að komi til okkar í veislu.

Fjárhagsáhyggjur gera mann veikan, ég kláraði allt veikindafríið mitt í fyrra, því ég fékk taugaáfall í tvígang. Í stað þess að vera glaður þegar einhver á afmæli eða það eru að koma jól, þá eykur slíkt bara á áhyggjur manns.

Ég held svo oft að betri tímar séu að koma, en þá kemur alltaf eitthvað nýtt upp á.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Erna segir skilið við Miðflokkinn en hafði sóst eftir oddvitasæti – „Miðflokkurinn gekk úr mér“

Erna segir skilið við Miðflokkinn en hafði sóst eftir oddvitasæti – „Miðflokkurinn gekk úr mér“
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Össur tætir Pírata í sig: „Málefnalega skipta þau ekki lengur máli“

Össur tætir Pírata í sig: „Málefnalega skipta þau ekki lengur máli“
Fréttir
Í gær

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“
Fréttir
Í gær

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“