Markaðurinn, viðskiptahluti Fréttablaðsins, skýrir frá þessu í dag. Þar segir að þetta komi fram í drögum að kynningu á endurskipulagningu WOW air en Markaðurinn hefur drögin undir höndum.
Blaðið segir að samkvæmt áætluninni sé gert ráð fyrir töluverðum bata í rekstri félagsins. Lausafjárstaðan eigi að vera orðin jákvæð um 9,6 milljarða króna í árslok 2021 og hagnaður þess árs á að vera 8,7 milljarðar króna. Á þessu ári er reiknað með 900 milljóna króna tapi af rekstrinum.
Formlegar viðræður eru nú hafnar við innlenda og erlenda fjárfesta um að þeir leggi 40 milljónir dollara inn í félagið í nýju hlutafé. Ef það gengur eftir eignast þeir 51 prósent hlut í félaginu og fá forgangsrétt að arðgreiðslum og öðrum útgreiðslum.
Markaðurinn segist hafa heimildir fyrir að viðræður hafi verið teknar upp á nýjan leik við Indigo Partners en í síðustu viku var skýrt frá því að félagið væri hætt við að fjárfesta fyrir 90 milljónir dollara í WOW air.