fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Líney greindist 32 ára með krabbamein:„Kvalirnar verri en við að koma börnunum í heiminn“

Aníta Estíva Harðardóttir
Sunnudaginn 24. mars 2019 21:00

Greindist 32 ára Læknarnir voru rólegir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Líney Rut Guðmundsdóttir er 32 ára tveggja barna móðir sem býr í Reykjavík ásamt manni sínum og tveimur sonum. Eldri sonur þeirra hjóna er fjögurra ára en sá yngri sex mánaða. Þegar Líney var gengin um 33 vikur með yngri son sinn fór hún að finna fyrir breytingum á hægra brjósti sínu sem varð bólgið og hart viðkomu. Taldi hún breytinguna vera vegna meðgöngunnar en þegar bólgan gekk ekki til baka ákvað hún að heyra í mæðraverndinni til öryggis. Ljósmóðirin sem hún ræddi við sagði henni að hafa ekki áhyggjur og róaðist Líney töluvert við það. Fljótlega fór þó af stað atburðarás sem Líney sá ekki fyrir.

„Ég átti tíma hjá minni ljósmóður á 35. viku og fannst henni þetta frekar skrítið. Hún ákvað að hafa varann á og sendi mig í ómun á brjóstinu. Ég var ómuð af reyndum lækni í Domus Medica og sá hann ekkert nema smá vökva í brjóstinu sem hann sagði vera vökvablöðru. Hann tappaði um 35 millilítrum af vökva úr brjóstinu og ég fann strax fyrir miklum létti. Ég margspurði hann þó hvort hann sæi ekkert annað og fékk staðfestingu frá honum að þetta væri ekkert alvarlegt.“

Líney Rut Ásamt syni sínum sem er sex mánaða gamall í dag.

Krabbamein vex ekki svona hratt

Við þessar upplýsingar varð Líney mjög létt en um þremur vikum síðar hafði vökvablaðran fyllst aftur. Ljósmóðurinni leist ekki á málið en eftir ómun á Landspítalanum sá fæðingarlæknir fyrirferð í brjóstinu sem hann taldi þó aðeins vera gamalt blóð eftir ástunguna hjá Domus.

Vikurnar liðu og átti Líney strákinn sinn þann 13. september árið 2018. Brjóstið var enn stútfullt af vökva eftir fæðingu og var Líney að bugast vegna verkja.

„Heimaljósmóður minni leist ekki á þetta og sendi mig aftur upp á spítala. Þar var annar læknir sem skoðaði mig og sá nákvæmlega það sama og hinn en vildi þó til öryggis senda mig á leitarstöðina til þess að útiloka allt. Þarna byrjaði hræðslan að gera vart við sig.“

Líney fór á leitarstöðina þar sem fyrirferðin sást greinilega ásamt vökvanum.

„Hún sagði þetta líta út eins og góðkynja vörtu og sagði að krabbamein yxi yfirleitt ekki svona hratt. Sagði ólíklegt að það sæist ekki á 35. viku meðgöngu en væri orðið svona stórt núna. Í fyrstu ætluðu þau ekki að tappa af brjóstinu en ég sagðist ekki fara fyrr en það yrði gert. Þau gerðu það og í leiðinni tóku þau fínnálarsýni úr fyrirferðinni og ég fór út með þær upplýsingar að það væru 90% líkur á því að þetta væri góðkynja varta.“

Fínnálarsýnið reyndist ekki fullnægjandi og taka þurfti grófnálarsýni. Þá hafði blaðran aftur fyllt sig.

„Daginn eftir sýnatökuna fór mér að líða illa. Var mjög kalt og mjög verkjuð undir hendinni og niður hana. Það endaði á því að um morguninn þurfti að hringja á sjúkrabíl. Kvalirnar voru það miklar að þetta var verra en að koma börnunum í heiminn. Í ljós kom að ég hafði fengið sýkingu sem dreifði sér út um allt eitlakerfið. Ég lá inni á spítala í tæpar tvær vikur með sýklalyf í æð og á meðan ég var þar kom niðurstaðan úr sýnatökunni. Í ljós komu frumubreytingar, þvílíkur léttir.“

Heimurinn hrundi

Var þá tekin ákvörðun um að tveimur vikum eftir útskrift af spítalanum færi Líney í aðgerð þar sem fyrirferðin yrði fjarlægð og send í greiningu.

„Þann 19. nóvember kom skellurinn. Ég fór að hitta skurðlækninn í eftirfylgni og var svo glöð að nú ætti þetta að vera búið en þá fékk ég að vita að um krabbamein væri að ræða. Það þyrfti að fjarlægja brjóstið, ég þyrfti að fara í lyfjameðferð og mögulega geislameðferð. Heimurinn hrundi. Ég sat þarna 32 ára, tveggja barna móðir með nýfætt barn heima og fékk þessa blautu tusku í andlitið. Það fyrsta sem ég hugsaði var að ég væri að fara að deyja og ég myndi ekki fá að sjá strákana mína vaxa úr grasi. Það næsta var hárið, helvítis hárið. Læknirinn og hjúkrunarfræðingurinn voru yndislegar og náðu þær að róa mig aðeins niður og sögðu mér að batahorfur væru sem betur fer nokkuð góðar.“

Á þessum tímapunkti fór allt í gang og fór Líney í brjóstnám tveimur vikum seinna sem gekk vel. Þar fékk hún að vita að meinið hafði ekki náð að dreifa sér neitt.

„Þar sem þeir náðu öllu meininu litu þeir á mig sem læknaða en lyfja- og geislameðferðirnar kallast í mínu tilfelli fyrirbyggjandi eða viðbótarmeðferð þar sem læknarnir geta ekki verið 100% á því að það séu einhvers staðar einhverjar krabbameinsfrumur á sveimi. Mitt mein kallast þríneikvætt og hefur sú tegund þá tilhneigingu að dreifa sér þar sem það getur bæði farið með sogæðakerfinu með viðkomu í eitlana og með blóðinu sem gefur því greiðari leið að öðrum líffærum.“

Vill ekki vorkunn

Í janúar á þessu ári byrjaði Líney í lyfjameðferð og þarf hún að fara í sex skipti á tveggja vikna fresti og eftir það tekur við geislameðferð.

„Ég átti erfiðast með að sætta mig við lyfjameðferðina þar sem hún gerir mig veika og gerir sjúkdóminn sýnilegan vegna hármissisins. Ég vildi síst af öllu breytast í sjúkling. Ég er búin með fjórar meðferðir af sex og þetta hefur gengið ágætlega. Ég á oftast eina slæma viku og eina ágæta og svo er maður skotinn niður aftur. Þreytan, orkuleysið og vanlíðanin er svakaleg og ég á enn erfitt með að sætta mig við hármissinn og fer ekki út úr húsi nema með hárkollu. Það er aðallega af því að ég vil ekki vera sjúklingurinn á svæðinu og fá vorkunn frá fólki.“

Segir Líney það vera mikla áskorun að ganga í gegnum veikindi sem þessi með tvö lítil börn en fjölskyldan sé virkilega heppin með gott bakland og mikla hjálp.

„Það munar öllu í svona aðstæðum því það gerir það að verkum að börnin okkar finna ekki eins mikið fyrir aðstæðunum. Ég hef alltof oft heyrt að ef konur undir fertugt finni eitthvað í brjóstunum sínum sé gert lítið úr því af því að þær séu ekki „nógu gamlar“ til þess að fá brjóstakrabbamein. Það eru um tíu konur á ári sem greinast fyrir fertugt og ég vil hvetja konur á öllum aldri til að vera meðvitaðar um brjóstin á sér. Ef þær finna eitthvað að standa þá með sjálfum sér og fá skoðun. Líkurnar á að allt sé í góðu eru mun meiri en þú gætir líka verið ein af þessum tíu.“

Líney hefur ákveðið að deila ferli sínu í krabbameinsmeðferð á Instagram undir notandanafninu: lrg9

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“