Stórleikarinn Ólafur Darri Ólafsson er næsti gestur Loga Bergmanns í spjallþættinum Með Loga sem sýndur er í Sjónvarpi Símans í kvöld.
Ólafur Darri hefur notið góðs gengis á erlendum vettvangi undanfarin ár og leikið á móti stórstjörnum eins og Ben Stiller, Gerard Butler, Jason Statham og Jennifer Aniston. Þrátt fyrir að hafa hitt allt þetta fræga fólk, er einn Íslendingur sem hefur gert hann agndofa.
„Ég var til dæmis um daginn í partíi, fór út að borða með fullt af frægu fólki. Svo kemur Ólafur Elíasson inn og ég var algjörlega „starstruck“ því Ólafur Elíasson finnst mér alveg stórmerkilegur listamaður. Og ég hef aldrei hitt hann áður og mér þótti svo vænt um það,“ segir Ólafur Darri í meðfylgjandi kitlu fyrir spjallþáttinn. Hann segist skilja það vel að fólk falli í stafi yfir frægu fólki.
„Ég skil þessa tilfinningu mjög vel. Þú sérð einhvern sem er inni í stofu hjá þér og þér finnst nánast vera fjölskylduvinur. Og þig langar að heilsa og segja takk eða spyrja: Hver er morðinginn?“