„Í ljósi þeirrar stöðu sem skapast hefur á vinnumarkaði í dag er ágætt að velta fyrir sér hvernig komist var á þann stað. Og þá er rétt að velta fyrir sér hvort sú áhersla sem lögð hefur verið á háskólamenntun í landinu í áraraðir hafi skilað þjóðinni einhverjum lífskjaraávinningi fyrir hinn almenna vinnandi mann,“
skrifar Örn Gunnlaugsson, atvinnurekandi, í Morgunblaðið í dag og nefnir að samkvæmt æviágripum þingmanna á vef Alþingis megi sjá að flestir þeirra séu „sprenglærðir“, sem hafi þó komið að litlum notum, miðað við ástandið á vinnumarkaði:
„Í ljósi þeirrar stöðu sem nú er uppi á vinnumarkaði í landinu væri synd að segja að hinar sveru gráður hafi aukið greind þeirra svo nokkru nemi. A.m.k. hefur ekki einn einasti aðili sem nú situr á Alþingi nýtt aðstöðu sína til að koma í veg fyrir það sem nú hefur sanngerst. Án þess að hreyfa nokkrum andmælum létu þjóðkjörnir fulltrúar það gerast, allir sem einn, að þeir sjálfir ásamt stórum hópi embættismanna og forstjóra ríkisfyrirtækja og stofnana hækkuðu í launum um tugi prósenta og jafnvel með áralangi afturvirkni. Hafi einhver þeirra sem sitja á Alþingi meðtekið smásnefil af því sem menntun er ætlað að skila með þeim gráðum sem viðkomandi státa af þá hefðu þeir væntanlega nýtt aðstöðu sína til að koma í veg fyrir þá stöðu sem nú er komin upp á íslenskum vinnumarkaði. En í stað þess að aðhafast þá kusu allir þessir aðilar í dómgreindarleysi sínu að hrósa happi í græðgi sinni yfir betri kjörum sér til handa og skeyta ekkert um afleiðingarnar,“
segir Örn og er ekkert að skafa utan af því.
Hann segir ekkert betra hafa tekið við eftir að kjararáð var lagt niður og ýjar að spillingu meðal ríkisforstjóra þegar þeir fengu sínar launahækkanir:
„Rétt er að hafa í huga að oftar en ekki eru forstjórar ríkisfyrirtækja einnig stjórnarmenn í öðrum ríkisfyrirtækjum og því gildir hið fornkveðna: „Ef þú klórar mér þá klóra ég þér.“ Í stjórnum umræddra ríkisfyrirtækja sitja oft á tíðum sverustu gráður landsins sem að eigin mati eru svo ómissandi að þegar þeirra nýtur ekki lengur við þá mun samfélagið stöðvast samstundis á sama hátt og það gerðist (ekki?) þegar fólk af sama sauðahúsi hvarf til æðra tilverustigs. En sauðsvartur almúginn er hins vegar svo gráðuskertur og illa gefinn að hann verður aldrei var við þegar samfélagið stöðvast af þessum sökum, eða eins og sagt er: „Hann bara fattar það ekki.“
Örn er á þeirri skoðun að íslensku samfélagi hafi hnignað mjög eftir að ákvörðunin um Kárahnjúkavirkjun kom til og hafi nánast lagt það í rúst. Segir hann verkalýðsfélögin bera mikla ábyrgð:
„Þá hófst í raun að einhverju marki innflutningur á þrælum frá austantjaldslöndunum og alkunna var að ítalskt verktakafyrirtæki hér nýtti sér kínverskt vinnuafl sem var langt undir kjörum íslensks vinnumarkaðar. Í stað þess að bera gæfu til að innræta þrælunum íslenska vinnumenningu þá fluttu þeir inn þá atvinnubótavinnumenningu sem þekkt var í Sovét fyrir fall múrsins. Sinnuleysi verkalýðsfélaganna var nánast algjört á árunum fyrir hrun enda jókst streymi félagsgjalda í sjóði þeirra verulega án þess að hirt væri um réttindi þrælanna sem nokkru nam nema helst til skreytinga á tyllidögum í fjölmiðlum.“
Örn segir að í hruninu hafi „þrælahaldið“ minnkað, en margeflst í uppsveiflu undanfarinna ára, í nafni starfsmannaleiga:
„Verkalýðshreyfingin hefur í skjóli stóraukins fjárstreymis til sín í formi félagsgjalda sýnt „umbjóðendum“ sínum algert tómlæti sem valdið hefur því að langflestir þeirra sem vinna með höndunum hafa farið á mis við þá verðmætasköpun sem orðið hefur samfara uppsveiflu síðustu ára. Nú er svo komið að í ófaglærð láglaunastörf fást einungis þrælar frá löndum þar sem þeir hinir sömu lifa í eymd og eiga þeir þá val um að hafa það skítt á Íslandi eða deyja drottni sínum í heimalandinu. Íslendingar hafa hins vegar átt talsvert betri lífskjörum að venjast og láta ekki bjóða sér það sem hinir innfluttu þrælar sætta sig við. Þetta er svo helsta ástæða þess að nánast lógaritmísk fjölgun hefur orðið á þiggjendum örorkubóta og fólki á atvinnuleysisbótum. Nú loksins þegar eitraða eplið er að hrökkva úr koki verkalýðshreyfingarinnar þá lýsa þeir sem á undanförnum misserum hafa fengið tugprósenta hækkanir á sín ofurlaun yfir undrun sinni á að almúginn vilji ekki lengur þurfa að skammast sín fyrir tilveru sína. Inn í verkalýðsfélög ófaglærðra stétta hefur svindlað sér fólk með sverar gráður sem þegið hefur laun sem eru langt umfram það sem það hefur samið um fyrir umbjóðendur sína.“
Þá segir Örn að verkalýðshreyfingin eigi ekkert erindi upp á dekk varðandi kröfur sínar:
„Þó að helstu arkitektarnir að þeirri krísu sem nú er á íslenskum vinnumarkaði séu kjörnir fulltrúar á Alþingi þá er beinlínis rangt að verkalýðshreyfingin eigi kröfu á að sækja einhverjar kjarabætur til skattgreiðenda. Samningsaðilar eiga að semja sín á milli og svo kemur það í hlut arkitektsins að lagfæra eigið klúður. Ef einn einasti aðili sem nú situr á þingi hefði svo mikið sem þriðjung af því áræði og þeirri greind sem Bakkabræður höfðu mætti hugsanlega enn afstýra stórslysi.“
Örn, sem er eigandi Bindir& Stál, vakti athygli árið 2016 er hann keypti heilsíðu auglýsingu í Morgunblaðinu hvar hann spurði hversu miklu þingmenn væru að svíkja undan skatti með því að telja ekki dagpeninga fram með löglegum hætti.
Myndbirti hann tíu þingmenn sem hann sagði hafa ferðast mest, ásamt ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra.
Sjá nánar: Keypti heilsíðu í Morgunblaðinu og spyr um skattsvik þingmanna