Deilt á Donald Trump í sigurræðum
Söngvamyndin La La Land hlaut flest verðlaun á Golden Globe-verðlaunahátíðinni síðastliðinn sunnudag. Myndin var tilnefnd til sjö verðlauna og hlaut þau öll. Emma Stone og Ryan Gosling hlutu verðlaun fyrir leik sinn, myndin var valin sú besta í flokki gaman- og söngvamynda og hlaut verðlaun fyrir leikstjórn, auk annarra verðlauna, þar á meðal fyrir tónlist.
Besta dramamyndin var valin Moonlight og Casey Affleck var besti dramaleikarinn í myndinni Manchester by the Sea. Hin franska Isabelle Huppert var valin besta dramaleikkonan í myndinni Elle en þar leikur hún konu sem er nauðgað og hyggur á hefndir. Leikkonan hefur sankað að sér verðlaunum fyrir leik sinn í myndinni. Myndin hlaut einnig verðlaun sem besta erlenda myndin. Afar líklegt má telja að Elle hreppi einnig Óskarsverðlaun sem besta erlenda myndin.
Þrír leikarar bresku sjónvarpsþáttaraðarinnar Næturvörðurinn hlutu Golden Globe: Tom Hiddleston, Hugh Laurie og Olivia Colman. Í snjallri þakkarræðu sinni gerði Laurie grín að Donald Trump og meintri útlendingaandúð hans. Meryl Streep, sem hlaut heiðursverðlaun Cecil de Mille fyrir ævistarf sitt eyddi miklu púðri á Trump í ræðu sinni. Viðbrögðin voru á þann veg að engum ætti að dyljast að Trump á sér formælendur fáa í Hollywood.
The Crown var valin besta sjónvarpsþáttaröðin og Claire Foy fékk verðlaun fyrir leik sinn í þáttunum en þar fer hún með hlutverk Elísabetar Englandsdrottningar.