fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Bjarni segir viðbrögðin vera „óþarfa upphlaup“ úr öllu samhengi: „Lítill hausverkur við hliðina á hinu“

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 18. mars 2019 08:58

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, segir viðbrögð sveitarstjórnarfólks langt umfram efni þegar kemur að hugmyndum að skerðingu á framlögum til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er nemur 3,3 milljörðum á næstu tveimur árum, líkt og ráð er fyrir gert í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Var því borið við að ekkert samráð hefði verið haft um slíka fyrirætlan.

„Í fyrsta lagi finnast mér þessi viðbrögð, ummæli og ályktun sveitarstjórnarfólks vera úr öllu samhengi við efni málsins,“

segir Bjarni við Morgunblaðið í dag, en sveitarstjórnarfólk víða um land hefur mótmælt skerðingunni og stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga samþykkti harðorða bókun vegna málsins , þar sem hótað var róttækum aðgerðum ef viðræður við Bjarna skiluðu ekki árangri.

Engin tillaga komin fram

Bjarni segir að verið sé að gera úlfalda úr mýflugu:

„Þetta byrjar á því að ekki er komin fram nein tillaga um skerðingu á framlagi til jöfnunarsjóðsins. Það er hins vegar rétt að við höfum nefnt við fulltrúa sveitarfélaganna að við vildum fara fram á að sveitarfélögin myndu halda sömu krónutölu og verið hefur í framlagi til sveitarfélaganna næstu tvö árin. Þetta var hugsað sem framlag sveitarfélaganna til þeirrar stöðu sem er uppi í efnahagsmálum og myndi þá styðja við markmið stjórnvalda, ríkis og sveitarfélaga, um afkomuna á næstu árum.“

Óþarfa upphlaup

Bjarni nefnir einnig að það sé ríkið sem beri kostnaðinn við þær aðgerðir sem til umræðu eru við aðila vinnumarkaðarins:

„Þar má nefna hækkun atvinnuleysisbóta, lengingu fæðingarorlofs, hækkun barnabóta, við erum að kynna skattalækkanir upp á 15 milljarða króna og stofnframlög til byggingar á félagslegu húsnæði – allt eru þetta aðgerðir sem eru mikilvægar fyrir framvindu mála á vinnumarkaði og ríkið sér eitt um að fjármagna og hrinda í framkvæmd. Fyrir mér er ekki óeðlilegt að sveitarfélögin leggi eitthvað af mörkum en við heyrum skýran tón frá þeim um að þau virðist ekki tilbúin. Það kemur mér á óvart og þá sérstaklega þegar um er að ræða hugmynd sem er teflt fram á vinnufundi, að menn hlaupi þá til og byrji að álykta, í ljósi þess hve víðtækt samstarf er milli ríkis og sveitarfélaga. Að tala um að setja í uppnám öll fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga vegna hugmyndar sem er nefnd á fundi finnst mér vera úr öllu samhengi og óskiljanlegt. Þetta er óþarfa upphlaup af litlu tilefni.“

Óformaðar tillögur

Fyrirhugað er að Bjarni mæli fyrir fjármálaáætluninni þann 26. mars á Alþingi. Segir hann nauðsynlegt að endurskoða fleiri atriði einnig:

„Við höfum verið að létta af sveitarfélögunum tuga milljarða króna lífeyrisskuldbindingum á undanförnum árum og fært til betri vegar ýmis önnur mál. Þessi tónn kom mér því verulega mikið á óvart. Við erum líka að auka aðhaldið í þeim forsendum sem við vinnum með í dag. Allt er þetta vegna fjármálaáætlunar og vinnu sem er ekki komin fram. En stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga er farin að tjá sig um mál sem eru ekki komin fram sem formaðar tillögur.“

Lítill hausverkur

Bjarni segir þetta mál ekki mikið miðað við aðra hausverki sem hann glími við:

„Við getum lifað við hagspárnar eins og þær eru núna, en okkur stendur aðallega ógn af öðrum óvissuþáttum eins og í fluginu, vegna loðnubrests og vegna kjarasamninga. Það eru ógnirnar sem við stöndum frammi fyrir í dag. Þetta atriði milli ríkis og sveitarfélaga er lítill hausverkur við hliðina á hinu.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt