„Þetta er svolítið spes fíkn. Ef maður er alkóhólisti eða dópisti, þá er maður með þarna eitthvað sem maður getur sleppt. Maður verður að borða til að lifa. Maður getur ekkert hætt að borða,“ segir tónlistarmaðurinn Valdimar Guðmundsson í þættinum Einkalífið á Vísi. Í þættinum ræðir hann lífið og tilveruna, þar á meðal matarfíknina sem hann er haldinn.
„Ég man svo sterkt eftir því þegar ég datt í átak einhvern tímann og hætti að borða þetta og hitt. Þá allt í einu fór stressið í mér rosalega mikið upp og ég fann fyrir rosalega mikið af tilfinningum. Ég var kvíðinn og allt í einu rosalega hræddur við dauðann. Ég fattaði þá, þetta deyfir mig svolítið. Ef manni líður illa þá er þetta ákveðin huggun. Seinna að kvöldi er fínt að ná sér í einn nammipoka eða snakkpoka og horfa á sjónvarpið og deyfa sig svolítið með þessum mat eða nammi,“ segir tónlistarmaðurinn.
Hann segir að tilfinningar stjórni átinu og að hann borði mest þegar hann er í uppnámi.
„Þetta deyfir mann algjörlega og maður er hvorki glaður né leiður og bara flýtur áfram. Þetta er kannski smá gat í hjartanu sem maður er að fylla í.“