fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024

Draumur Björgvins rættist eftir að hann hafði sleppt tökunum

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 10. mars 2019 10:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Við hittum Björgvin Franz Gíslason fyrir í Borgarleikhúsinu. Stutt er í frumsýningu á söngleiknum Matthildi sem margir bíða með eftirvæntingu. Björgvin verður þar í stóru hlutverki, samhliða því að leika í Elly sem er nú komin yfir 200 sýningar.

Munt þú eitthvað hitta fjölskylduna á næstunni?

„Ég tek kannski á móti börnunum þegar þau koma úr skólanum en fyrir utan það verð ég í vinnunni,“ segir Björgvin kíminn. Það er létt yfir honum en jafnframt augljós spenna fyrir að fara að sýna annað stórt verk. Við settumst niður og ræddum saman um leiklistina, æskuna með ADHD, áfengisvandamálið á yngri árum og skammvinnt samstarf með Clint Eastwood.

Þetta er brot úr stóru viðtali í helgarblaði DV.

Náttúrulegt að leika konu

Það styttist í frumsýningu á söngleiknum Matthildi, sem byggður er á frægri barnabók Roalds Dahl. Söngleikurinn var frumfluttur í Bretlandi árið 2010 og hefur slegið í gegn á West End og Broadway. Gísli Rúnar þýddi verkið og Björgvin fékk hlutverk Karítasar Mínherfu, hinnar illu skólastýru.

Er erfitt að leika konu?

„Nei, þetta er mér mjög náttúrulegt. Ég byrjaði ferilinn sem transkona í leikritinu um hina þýsku Hedwig, fljótlega eftir útskrift. Hárkollan sem ég nota núna er meira að segja nákvæmlega eins greidd og sú sem ég var með í Hedwig. Þessi nýja er hins vegar grá en ekki hvít þannig að ég verð eins og kynskiptingurinn orðinn eldri,“ segir Björgvin og hlær dátt. „Það skiptir mig ekki máli hvort ég leik konur eða menn, en ég elska að fá að leika svona villtar persónur.“

Matthildur fjallar um stúlku sem þróar með sér ofurkrafta í baráttu sinni gegn ranglætinu í heiminum. Foreldrar hennar eru sinnulausir og því þarf hún að kenna sér sjálf lesa. Karítas Mínherfa er persóna sem þolir ekki hæfileika annarra og reynir að koma í veg fyrir að þeir fái að njóta þeirra. Beitir hún því allan bekkinn ofbeldi og einelti en Matthildur berst á móti með sanngirninni og réttlætinu.

Hefur þú leikið svona fól áður?

„Aldrei svona illmenni, nei. En mér finnst gaman að takast á við þetta. Margir leikarar segja að það sé langskemmtilegast að leika illmennin. Þau eru svo litríkar persónur.“

Þú hefur verið mikið í barnaefni og barnasýningum. Finnst þér það skemmtilegra en að sýna fyrir fullorðna?

„Ég verð nú að segja „bæði betra“ eins og í auglýsingunni. Það er mjög krefjandi að leika fyrir börn því að ef þeim leiðist fara þau að tala og gera eitthvað annað. Þú verður að halda athygli þeirra allan tímann. Fullorðið fólk er krefjandi líka en það felur betur það sem því líkar ekki. Mér finnst gott að blanda þessu saman.“

 

Draumurinn að rætast núna

Það er ekki hægt að segja annað en að Björgvin Franz hafi snúið aftur í leikhúsið með hvelli eftir langt hlé. Í fjögur ár bjó fjölskyldan í Minnesota, var við nám og Björgvin sá ekki fyrir sér framtíð í leikhúsi. Til dæmis stofnaði hann kvikmyndaframleiðslufyrirtæki með félaga sínum, Óla Birni Finnssyni. Hafa þeir framleitt stuttar myndir fyrir Hafnarfjarðarbæ og ferðaþjónustufyrirtæki. Endurkoma hans í leikhúsið kom honum sjálfum hvað mest á óvart.

„Árið 2011 hafði ég starfað samfleytt í skemmtanabransanum í tíu ár. Í leikhúsinu, Stundinni okkar, veislustjórn, uppistandi og töfrum. Að kúpla sig út úr þessu um tíma var mjög hollt, bæði fyrir mig og fjölskylduna. Þegar ég svo steig aftur á sviðið í Elly hafði ég ekki verið í leikhúsi í tíu ár. Ég var búinn að gefa þann draum upp á bátinn, en ekkert í neinu fússi eða leiðindum. Síðan hringdi Gísli Örn í mig fyrirvaralaust og bauð mér að leika Ragga Bjarna og Villa Vill og ég ákvað að grípa gæsina.“

Björgvin ólst upp í nálægð við leikhúsið og hefur í gegnum tíðina unnið flest störf innan þess. Þegar hann gerðist loks leikari þurfti hann að vinna með þær væntingar og tilfinningar sem hann hafði gagnvart faginu. Í fyrstu stóðust þessar væntingar ekki að fullu og því tók hann sér ótímabundið hlé frá leikhúsinu.

„Núna finnst mér sem draumurinn sem ég hafði um leikhús sé að rætast. Allt sem mig langaði í er ég að fá núna. Eftir að ég var búinn að sleppa tökunum og hélt að ég væri ekkert að koma inn aftur. Ég fæ að takast á við æðisleg hlutverk, með æðislegu fólki og í æðislegu húsi og setja minn stimpil á. Ég fæ núna að vera leikari á mínum eigin forsendum.“

Björgvin segist passa sig á því að plana ekki ferilinn langt fram í tímann heldur vera opinn fyrir öllum tækifærum sem gefast. Hann hafi þó sýn og takmörk sem hann vilji enn ná, til dæmis í kvikmyndum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Margir bregðast við tilkynningu Alfreðs í dag – „Þvílíkur heiður að hafa fengið að deila með þér mögnuðum minningum“

Margir bregðast við tilkynningu Alfreðs í dag – „Þvílíkur heiður að hafa fengið að deila með þér mögnuðum minningum“
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Vilja fá hann frítt frá Arsenal næsta sumar

Vilja fá hann frítt frá Arsenal næsta sumar
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Romano uppljóstrar því hvaða stöðu Amorim vill kaupa í fyrst

Romano uppljóstrar því hvaða stöðu Amorim vill kaupa í fyrst
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Fékk á sig fúkyrðaflaum fyrir klæðnað í jarðarför Liam Payne – Sagan er hins vegar falleg og hreyfir við fólki

Fékk á sig fúkyrðaflaum fyrir klæðnað í jarðarför Liam Payne – Sagan er hins vegar falleg og hreyfir við fólki
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Breiðablik staðfestir kaup á Ágústi frá Genoa

Breiðablik staðfestir kaup á Ágústi frá Genoa
Fókus
Fyrir 16 klukkutímum

„Að fá að vera fulltrúi lands og þjóðar er mikill heiður sem ég ber af þakklæti og auðmýkt“

„Að fá að vera fulltrúi lands og þjóðar er mikill heiður sem ég ber af þakklæti og auðmýkt“