Nafnið Suðurnesjabær varð hlutskarpast í könnun meðal íbúa sameinaðs sveitarfélags Sandgerðis og Garðs í desember og hlaut nafnið samþykki Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins frá og með 1. janúar 2019.
Bjarki Lúðvíksson, grafískur hönnuður hjá auglýsingastofunni Hvíta húsinu, var fenginn til til að hanna bæjarmerki fyrir sveitarfélagið. Er merkið byggt á tengslum bæjarins við hafið. Á því má sjá skip búið seglum bera við sjóndeildarhringinn. Samhverfan í línum skipsins og öldum hafsins undir vísa í sameininguna. Skipið sjálft er hvítt, en grunnliturinn blár, litur himins og hafs. Einnig eru til útfærslur með dökkum línum og ljósum bakgrunni þar sem aðstæður eða tilefni kalla á slíka útfærslu.
„Við erum hæstánægð með útkomuna,“ segir Magnús Stefánsson, bæjarstjóri Suðurnesjabæjar um merkið. „Þetta er stílhreint merki með nútímalegum blæ en sker sig heldur ekki um of úr öðrum bæjarmerkjum og myndefnið er viðeigandi fyrir staðsetningu, atvinnuhætti og menningu Suðurnesjabæjar.“