fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Konráð birti þessa átakanlegu mynd: „Félagi minn borinn út í líkbíl“ – Höfum hugrekki til að spyrja!

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 5. mars 2019 16:02

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Konráð Ragnarsson birti þessa átakanlegu og áhrifamiklu ljósmynd á Facebook-síðu sinni með eftirfarandi skilaboðum: „Félagi minn borinn út í líkbíl eftir sjálfsvíg!Mun ætíð minnast hans sem eins af skemmtilegustu mönnum sem ég hef kynnst! Hvíl í friði vinur!“

Konráð, sem er fær ljósmyndari og hefur haldið sýningar á verkum sínum, veitti DV leyfi til að birta myndina og spjallaði við okkur frá Svíþjóð þar sem hann býr. Vinur Konráðs sem lést með þessum sorglega hætti var á sjötugsaldri eins og Konráð sjálfur en hann vill að öðru leyti ekki tjá sig um manninn né dauða hans – en þessi áhrifaríka mynd talar sínu máli um þrúgandi sorg atburðarins:

„Þetta er sterk mynd og hún segir mikið. Ef það er minnst á sjálfsvíg í fréttum þá er þetta bara eitthvert orð, eitthvað sem þú getur gleymt og pælir ekki meira í ef þú ert ekki sérstaklega tengdur málinu. En þessi mynd sýnir afleiðingarnar, drungann og sorgina, hún sýnir hvað gerist, svona verður þetta þegar þú deyrð.“

Atvikið gerðist fyrir um tveimur árum en af tillitsemi við aðstandendur vildi Konráð ekki birta myndina fyrr.

Mynd: Konráð Ragnarsson

Erfið æfi Konráðs

Konráð hefur sjálfur átt afar erfiða æfi. Hann var vistaður á upptökuheimilinu í Breiðuvík á unga aldri þar sem hann varð fyrir andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi. Hann hefur glímt við mikið heilsuleysi sem meðal annars tengist voðaskoti sem hann fékk í annan fótinn fyrir nokkrum áratugum. Hann þurfti að lifa með miklum sársauka og verkjum í fætinum uns fóturinn var tekinn af árið 2014:

„Eftir að þeir tóku af mér fótinn varð ég fyrir sýkingu í munni sem leiddi til þess að ég missti allar tennurnar úr munninum. Ég þurfti því að læra að ganga og tyggja upp á nýtt á sama tíma,“ segir Konráð en hann þurfti líka að þola miklar þjáningar við það að fara af verkjalyfjum:

„Stundum skil ég ekkert í sjálfum mér en ég beit það í mig að hætta á verkjalyfjum um leið og fóturinn væri farinn en ég hafði verið á sterkum lyfjum vegna verkjanna. Þetta þýddir gífurleg fráhvarfseinkenni en seinna skildist mér að svona geri maður ekki – maður hættir ekki á morfíni fyrirvaralaust. En það sagði mér enginn.“

Í ljósi mikilla erfiðleika á lífsleiðinni vaknar sú spurning hvort Konráð hafi hugleitt sjálfsvíg sjálfur: „Jú, það hef ég gert, en það hefur aldrei gengið svo langt að ég hafi verið farinn að skipuleggja það.“

Tugir skráðra sjálfsvíga árlega

Samkvæmt tölum frá Landlækni voru 34 sjálfsvíg skráð hér á landi árið 2017, 32 karlar og 2 konur. Árið 2016 var talan 40, 36 karlar og 4 konur. Árið 2015 eru skráð 30 sjálfsvíg karla og 11 sjálfsvíg kvenna. Stærsti hópurinn eru karlar ár aldrinum 15 til 44 ára.

Sjálfsvíg og slys algengari en venjulegur dauðdagi

Svo undarlega hagar til að fjölmargir sem Konráð þekkir hafa tekið eigið líf, þar á meðal bróðir hans og nokkrum árum síðar sonur hans. Einnig fjölmargir vinir, kunningjar og vinnufélagar:

„Ég var að rifja þetta upp um daginn og var fljótur að komast upp í 15. Líklega kæmist ég upp í 30 ef ég héldi áfram að rifja upp. Að fólk hafi dáið vegna sjálfsvígs eða slyss er algengara í kringum mig heldur en venjulegur dauðdagi, til dæmis að verða bráðkvaddur eða deyja úr sjúkdómum. Það er undarlegt hlutskipti að í gegnum mína ævi hefur sjálfsvíg orðið hinn eðlilegi dauðdagi. Meðal þeirra sem hafa farið svona eru nokkrir af Breiðavíkurstrákunum.“

Sjálfsmynd: Konráð Ragnarsson

Mikilvægt að þora að spyrja

Konráð nefnir afar mikilvægt atriði sem gæti komið í veg fyrir sjálfsvíg og allir ættu að hugleiða:

„Þetta hefur verið mikið í umræðunni hér í Svíþjóð undanfarið vegna niðurstaðna um vaxandi þunglyndi bæði ungmenna og gamalmenna, sem og vaxandi sjálfsvígstíðni. Ég heyrði sérfræðing ræða það um daginn að það væri mikilvægt að þora að spyrja. Ef þig grunar að einhver þér nákominn sé í þessum hugleiðingum þá getur skipt sköpum að fara á eintal við þennan aðila og einfaldlega spyrja hann hvort hann sé að hugsa um að gera þetta. Ef einhver opnar á umræðuna þá brestur eitthvað í viðkomandi – ég held nefnilega að fæstir vilji gera þetta en þeir vilja hjálp. Svona kjarkur getur bjargað mannslífum! Maður sem er í þessari hugsun hefur kannski verið að pæla í þessu mjög lengi einn og af því hann er einn með hugsuninni þá verður hún mjög brengluð.“

Konráð segir að margir sem séu í sjálfsvígshugleiðingum gefi það í skyn með orðum sínum en aðrir sýni þau einkenni að ganga frá öllum lausum endum í lífi sínu. „Ég veit dæmi um mann sem hafði verið í sambúð í 30-40 og dreif sig í að giftast konunni áður en hann tók líf sitt. Hnýtti líka alla lausa enda í lífi sínu.“

Konráð bendir á að margir séu flínkir við að leyna líðan sinni og engan grunar að þeir séu í sjálfsvígshugleiðingum. „Síðan eru aðrir sem taka um þetta skyndiákvörðun. Þetta skeður skyndilega, í örvæntingu. Dæmi eru um að fólk ákveði að hengja sig, hugsar um að hætta við í snörunni en þá er það bara of seint, þú ert svo fljótur að detta út við þessar aðstæður að það er ekki aftur snúið.“

Konráð ítrekar mikilvægi þess að þora að spyrja, að opna á umræðuna við þá sem kunna að vera í sjálfsvígshugleiðingum, það geti bjargað mannslífum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Erna segir skilið við Miðflokkinn en hafði sóst eftir oddvitasæti – „Miðflokkurinn gekk úr mér“

Erna segir skilið við Miðflokkinn en hafði sóst eftir oddvitasæti – „Miðflokkurinn gekk úr mér“
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Össur tætir Pírata í sig: „Málefnalega skipta þau ekki lengur máli“

Össur tætir Pírata í sig: „Málefnalega skipta þau ekki lengur máli“
Fréttir
Í gær

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“
Fréttir
Í gær

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“