Leikarinn og kvikmyndagerðarmaðurinn Jonah Hill segist vera meira en tilbúinn til að eyða frítíma sínum í að hjálpa fólki sem á bersýnilega við vandamál að stríða. Hugmyndin að þessu kviknaði eftir að athugasemdir fóru að hrannast upp á samfélagsmiðlum hans, þar sem hver ummælin á eftir öðrum tala niður til leikarans og kalla hann alls konar illum nöfnum.
Einn tiltekinn Instagram-notandi, sem kallar sig afools_watch, sagði að Hill væri sjálfumglatt fífl og ætti ekki að vera að gera kvikmyndir um hjólabrettamenninguna í Bandaríkjunum. Þarna er vísað í leikstjórafrumraun hans, kvikmyndina Mid-90s þar sem mikil áhersla er lögð á hjólabrettakappa, en myndin sækir í æskuár Hill og dregur mikinn innblástur þaðan og uppvaxtarskeið hans.
Í ummælunum segir notandinn meðal annars:
„Þú varst feitt nörd sem krakki og að þú skulir halda að þú hafir verið hjólabrettagarpur þýðir að þú ert ekki að vera samkvæmur sjálfum þér. Sættu þig við það að þú varst lúði og vertu raunsær.“
Hill ákvað þá að svara þessum tilteknu ummælum og viðurkenndi að hann hafi svo sannarlega verið lúði í æsku, en bætir við:
„Ég sé að þú glímir við mikinn sársauka og það hlýtur að vera ömurleg tilfinning. Sláðu á þráðinn ef þig vantar einhvern til að tala við. Reiði er aðeins sorg sem hefur verið bæld of lengi. Ég er til staðar fyrir þig, maður.“
Þessi orðaskipti leiddu til þess að Hill kom með stærri yfirlýsingu um að hjálpa hverjum þeim sem þyrfti á aðstoð að halda, eða einfaldlega einhvern til að ræða við.
„Ég vil standa við orð mín og tala við eins margar þjáðar sálir og ég get og mun veita þeim eins mikið af mínum frítíma og hægt er,“ segir Hill.