Nú styttist í stóru stundina í Söngvakeppninni þegar að fimm flytjendur etja kappi til að freista þess að verða fulltrúi Íslands í Eurovision í Ísrael í maí.
Mikið var fjallað um hjólhýsahasar á milli Friðriks Ómars og Hatara í gær, en þegar að Friðrik Ómar mætti með hjólhýsi fyrir utan Laugardalshöll gerðu meðlimir Hatara slíkt hið sama, nema splæstu í stærra hjólhýsi.
Friðrik Ómar lætur það ekki á sig fá og er búinn að vera duglegur að sýna fylgjendum sínum á Instagram frá lífinu í hjólhýsinu í dag.
Friðrik Ómar og hans fylgdarlið þarf næga orku fyrir langt kvöld og því kemur varla á óvart að hjólhýsið er stútfullt af alls kyns kruðerí, allt frá dökku súkkulaði til konfekts, frá Lindt-trufflum til Ferrero Rocher-mola, eins og sést á meðfylgjandi myndum.