Í nýju myndbandi frá Eurovision-sérfræðingunum William og Deban hjá Wiwibloggs, einni stærstu Eurovision-síðu í heiminum, fara þeir yfir öll lögin sem keppa í úrslitum Söngvakeppninnar á laugardagskvöldið.
Þeir byrja á Hatara með lagið Hatrið mun sigra og halda ekki vatni yfir laginu. Meðal frasa sem falla við áhorfið eru: „BDSM. Já! Gefðu mér fimmu!“, „Mjög dökkt, mjög reitt, mjög ögrandi. Hvað í fjandanum?“, „Þetta mun fæla marga frá en kveikja á mörgum“ og „Sko, ég er ekki fyrir BDSM en ég get ekki hætt að horfa. Þetta grípur mann og heldur manni.“
Félagarnir eru ekki jafnhrifnir af Heru. Þeir segja rödd hennar fallega en að lagið grípi þá ekki. „Þetta gerir mann þreyttan“ og „Eftir Hatara er þetta frekar almúgalegt,“ segja þeir og bæta við að lagið sé ekki eftirminnilegt.
Í fyrstu eru þeir William og Deban hrifnir af Kristinu Bærendsen, en verða fyrir vonbrigðum eftir inngang lagsins. „Frábær inngangur sem tók skarpa dýfu. Talandi um að ganga fram að bjargsbrún.“ Þeir fíla Kristinu sjálfa og sviðssetninguna en ekki lagið sjálft. „Stelpa, hvað sagði mamma þér. Segðu mér það!“
Tara Mobee hittir hins vegar algjörlega í mark hjá sérfræðingunum og er það annað uppáhaldslagið þeirra, á eftir Hatara. Þeir elska allt við atriðið; Töru sjálfa, dansarana, sviðssetninguna og fílínginn. „Þetta gæti verið spilað á klúbbum og í partíum,“ segja þeir. Þeir efast þó um að hún muni sigra en hvetja hana til að koma aftur að ári. „Vel gert hjá þér! Elskum þig, stelpa,“ segja þeir.
Þegar kemur að Friðriki Ómari eru skiptar skoðanir. William er alls ekki hrifinn. „Ég vildi að eitthvað myndi gerast. Þetta er endurtekning. Ég er hrifnari af Hatar og Töru Mobee,“ segir hann. „Mér finnst ég ekki hafa verið á ferðalagi. Þetta er bara flatt,“ bætir hann við. Deban fær hins vegar gæsahúð, en svo virðist sem hann sé hrifnari af vaxtarlagi Friðriks Ómars en söng. „Hann er búinn að vera að æfa!“
Hér fyrir neðan má horfa á myndbandið í heild sinni: