Morðið á Emilie Meng, 17 ára, í júlí 2016 er það mál sem einna mesta umfjöllun hefur hlotið. Hún kvaddi tvær vinkonur sínar á lestarstöðinni í Korsør á Sjálandi um klukkan 4 að morgni 10. júlí en vinkonurnar höfðu verið að skemmta sér. Emilie gekk út af lestarstöðinni og sást ekki á lífi eftir það. Lögreglan hóf strax umfangsmikla rannsókna og fjöldi sjálfboðaliða leitaði að Emilie en án árangurs. 33 ára karlmaður var síðan handtekinn grunaður um að hafa myrt hana en hann var síðar látinn laus. Fimm sinnum var húsleit framkvæmd í sama húsinu í Korsør því nágranni hafði hlerað nágranna sinn og taldi sig heyra hljóð frá manneskju sem væri innilokuð og haldið fanginni. Þetta reyndist ekki eiga við rök að styðjast. Á aðfangadag 2016 fannst lík Emilie í vatni við Borup, um 60 kílómetra frá lestarstöðinni. Lögreglan hefur ekki skýrt frá hvernig hún var myrt.
Þann 4. nóvember 2016 var Louise Borglit, 32 ára, stungin til bana í Elverparken í Herlev. Hún var stungin mörgum stungum. Hún var kasólétt þegar hún var myrt. Vegfarandi reyndi að veita henni lífsbjargandi aðstoð en læknir, sem kom fyrstur á vettvang, úrskurðaði hana látna. Kona, sem var að viðra hundinn sinn í Elverparken þegar Louise var myrt, heyrði tvö há öskur þegar Louise var stungin. Hún sá síðan mann koma hlaupandi út úr garðinum en hann sneri við þegar hann sá hana. Mikil rigning var á þessum tíma. Lögreglan hefur hvorki fundið morðvopnið né morðingjann.
Á Halloween 2014 var Lone Søndergaard, 71 árs, myrt á hrottalegan hátt í íbúð sinni í Lyngby. Hún var stungin rúmlega 40 sinnum í bringu og háls. Klukkan 19.47 var dyrabjöllunni hjá henni hringt og þegar hún opnaði var hún stungin. Lögreglan er engu nær um af hverju hún var myrt, hver gerði það né hefur hún fundið morðvopnið. Þá eru sönnunargögn í málinu mjög af skornum skammti. Vitað er að morðinginn yfirgaf íbúðina útataður í blóði en þar sem það var Halloween kippti enginn sér upp við það. Kenning lögreglunnar er að morðið hafi verið vel skipulagt og að morðinginn sé veikur á geði. Hann hafði sett „post it“ miða yfir gægjugöt á hurðum nágrannanna svo þeir gætu ekki séð fram á gang.
Þann 16. nóvember 2012 fannst Heidi Abildskov, 41 árs, myrt heima hjá sér í Virum. Hún hafði verið stungin margoft. Lögreglan hafði enga grunaði um verknaðinn en útilokaði að einhver, sem hún umgekkst, hefði verið að verki. Talið var að ræningi hefði orðið henni að bana því reynt var að stela Benz bifreið fjölskyldunnar. Lögreglan komst ekkert áfram við rannsókn málsins og lagði það alfarið til hliðar. En 2018 var það tekið til rannsóknar á nýjan leik eftir að nýþróuð aðferð við rannsóknir lífsýna sýndi að morðinginn er af asískum uppruna og var undir áhrifum nokkurra tegunda vímuefna þegar hann myrti Heidi. Lögreglan segist í raun hafa leyst alla þætti málsins nema hvað það vantar að hafa uppi á morðingjanum, öll önnur gögn eru sögð liggja fyrir.