Það er oft ansi mikill höfuðverkur að reyna að finna út úr því hvað maður ætlar að hafa í kvöldmat. Hér er réttur sem leysir öll slík vandamál og er líka einstaklega fljótlegur.
Hráefni:
1¼ bolli kúskús
315 ml sjóðandi vatn
1 grænmetisteningur, mulinn
1 hvítlauksgeiri, smátt saxaður
1 tsk. þurrkað kóríander
400 g kjúklingabaunir
½ bolli ferskt kóríander, fínsaxað
½ bolli fersk steinselja, söxuð
1 rauðlaukur, saxaður
200 g sólþurrkaðir tómatar í olíu
120 g klettasalat
börkur af 1 sítrónu, rifinn
5 msk. nýkreistur sítrónusafi
½ tsk. svartur pipar
60 g fetaostur
salt
Aðferð:
Setjið kúskús, kjúklingabaunir, grænmetistening, þurrkað kóríander og hvítlauk í stóra skál. Hellið sjóðandi vatni yfir herlegheitin og hristið til að blanda saman. Setjið plastfilmu eða disk yfir og setjið til hliðar í fimm mínútur. Hrærið aðeins í blöndunni með gaffli og leyfið þessu að kólna aðeins. Blandið restinni saman við, nema fetaosti og salti, og blandið saman. Skreytið með fetaosti og salti og berið fram.