Nýlega kom út bókin Lífið í lit, endurminningar Helga Magnússonar, sem Björn Jón Bragason, lögfræðingur og sagnfræðingur skráir.
Lífið í lit er fjölskyldusaga, meðal annars um atvinnurekstur þriggja kynslóða í 117 ár. Sagan segir einnig frá miklum átökum að tjaldabaki í íslensku viðskiptalífi, valdatafli um bankana í upphafi nýrrar aldar og átökum forystu atvinnulífsins og lífeyrissjóða við stjórnvöld eftir hrun, en Helgi var þá formaður Samtaka iðnaðarins og Lífeyrissjóðs verslunarmanna.
Helgi gerir Hafskipsmálinu góð skil, en hann var löggiltur endurskoðandi félagsins. Hann hefur einnig átt farsælan feril í viðskiptum meðal annars sem stjórnandi Hörpu og Hörpu Sjafnar. Síðustu 14 árin hefur hann verið hluthafi og stjórnarmaður í Marel og Bláa lóninu, þar sem hann gegnir formennsku.
Í bókinni segir meðal annars frá viðbrögðum Davíðs Oddssonar, ritstjóra Morgunblaðsins, við því hvernig Bjarni Benediktsson, þáverandi forsætisráðherra, héldi um stjórnartaumana í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Þegar stjórnarsamstarfið var í uppnámi fréttist af Bjarna í golfi, laxveiði og glápandi á fótbolta, sem Davíð fannst víst undarleg forgangsröðun og sagði:
„Ég veit ekki hvernig Bjarni hugsar þetta, en þegar ég var forsætisráðherra þá var litið á það sem fullt starf!“
Útgáfu bókarinnar var fagnað í Gamla bíói á laugardaginn var og mætti þar fjöldi góðra gesta.
Ljósmyndarinn Guðmundur Kr. Jóhannesson tók myndir af stemningunni.