Leikarinn Denzel Washington hefur tvisvar unnið til Óskarsverðlauna og hlotið fjölda annarra viðurkenninga. Hann er afar trúaður, fer í kirkju og les í Biblíunni. Hann fer ekki í felur með trú sína og segist finna mikinn styrk í henni. Hann les reglulega „orð dagsins“ í kristilegu tímariti og segist reyna að fara eftir þeim boðslap sem þar er að finna.
Washington er leikstjóri myndarinnar Fences og leikur jafnframt aðalhlutverkið. Myndin er byggð á samnefndu Pulitzer-verðlaunaleikriti August Wilson. Washington lék í leikritinu á árum áður og hlaut Tony-verðlaun fyrir túlkun sína á verkamanninum Troy. Nú er hann tilnefndur til Golden Globe-verðlauna fyrir sama hlutverk í mynd sinni og mótleikkona hans, Viola Davis, er einnig tilnefnd fyrir leik sinn.
Leikarinn tekur ekki undir það að hörundsdökkir leikarar í Hollywood eigi afar erfitt uppdráttar. „Það er meiri vinnu að hafa en nokkru sinni áður,“ segir hann. Hann segir að ef menn séu óánægðir með stöðu svartra í Hollywood eigi þeir hvorki að kvarta né kveina heldur leggja sig fram við að breyta hlutum.
Washington ólst upp í New York þar sem móðir hans rak snyrtistofu. Einn daginn kom skyggn kona inn á stofuna, leit á hinn unga Washington, tók pappírsblað og skrifaði efst á það: „Spádómur“ og fyrir neðan: „Þú átt eftir að ferðast um allan heim og predika yfir milljónum.“ Washington geymir þetta blað ennþá.