Hjartsláttaróregla getur verið orsök skyndidauða – Mikilvægt að vera meðvitaður
Teitur Guðmundsson læknir skrifar:
Við höfum heyrt um og jafnvel orðið vitni að því þegar ungt fólk er bráðkvatt í blóma lífsins, mögulega fyrir framan mörg þúsund manns á íþróttaleikvangi í fótboltaleik eins og dæmi eru um. Þá eru fjöldamörg tilvik um skyndidauða hjá ungu fólki í öðrum íþróttagreinum sem og utan íþróttanna.
Þetta eru fyrirvaralausir atburðir alla jafna og líkurnar á að lifa slíkt af byggja á því að einhver sé nálægur og geti brugðist við á réttan hátt. Orsök fyrir slíkum hörmulegum atburðum er oft og tíðum hjartsláttaróregla, en afar mikilvægt er að hjartað slái í réttum takti og viðhaldi þannig dælugetu sinni. Ýmsar ástæður geta legið til grundvallar slíku og það er munur á einstaklingum eftir aldri.
Hjá þeim eldri er líklegasta orsökin fyrir skyndidauða undirliggjandi hjartasjúkdómur og bráð kransæðastífla þar sem blóðflæði til hjartans raskast skyndilega. Þegar slíkt gerist getur hjartað ekki starfað eðlilega, fer á yfirsnúning og hættir að dæla blóði til líkamans. Það köllum við sleglatif og er ígildi hjartastopps. Þó eru mjög mörg atriði sem þarf að hafa í huga sem geta valdið hjartsláttartruflunum en þar á meðal eru veggbreytingar í hjartanu, ör í hjartavegg eins og eftir fyrra hjartaáfall, hár blóðþrýstingur, sykursýki, skjaldkirtilssjúkdómur, áfengis- og vímuefnanotkun, koffeindrykkir, streita, lyf og svo auðvitað ýmis fæðubótarefni.
„Eins og dæmin sanna getur það þó verið spurning um líf eða dauða að finna þær truflanir sem eru alvarlegar.“
Ekki eru allar takttruflanir hættulegar og þá er afar mismunandi hversu mikið einstaklingurinn finnur fyrir þeim. Þær geta komið fram á nóttunni þegar viðkomandi sefur, undir álagi í íþróttum en einnig í hvíld uppi í sófa. Almennt er þeim skipt í flokka sem eru annars vegar skilgreindir út frá því hvar í hjartanu þær eiga sér stað, hraða þeirra og því hvort þær eru reglulegar eða óreglulegar, viðvarandi eða tilfallandi. Yfirleitt er ekki hægt að greina nákvæmlega hvers eðlis truflanirnar eru nema með því að taka hjartalínurit og getur verið talsverður höfuðverkur að ná því þar sem ekki þarf að vera nein regla á því hvenær takttruflanir koma fram og geta jafnvel liðið margir mánuðir eða ár á milli atburða. Sumir, þá sérstaklega eldri einstaklingar, greinast fyrir tilviljun með breytingar á hjartslætti sem jafnvel eru viðvarandi en þeir taka ekkert eftir. Slíkt getur í sumum tilvikum leitt til hjartabilunar og eða heilaáfalla.
Eins og dæmin sanna getur það þó verið spurning um líf eða dauða að finna þær truflanir sem eru alvarlegar og er skynsamlegt að leita læknis ef einstaklingurinn finnur fyrir slíku, jafnvel þótt þær séu ekki til staðar við komu þangað getur sagan og lýsing einkenna gefið vísbendingar um hver næstu skref ættu að vera. Vísindaheimurinn er enn að reyna að verða sammála um það hvenær sé skynsamlegt að taka hjartalínurit í hraustum einkennalausum einstaklingum samanber íþróttamenn og sitt sýnist hverjum.
Ljóst er þó að til þess að greina einstaklinginn rétt þarf í grunninn hjartalínurit í hvíld, stundum undir álagi og mjög oft með sírita til að geta séð truflunina. Oftsinnis þarf að bæta við þessar rannsóknir ómskoðun og annarri myndgreiningu og jafnvel gera hjartaþræðingu auk þess sem gerðar eru blóðrannsóknir. Hjá þeim sem greinast og þurfa meðferð getur hún verið býsna margbrotin og allt frá lyfjum sem halda hjartsláttartruflunum í skefjum yfir í það að rafvenda hjartanu í réttan takt. Ýmsar aðgerðir eru til sem eiga að tryggja réttan gang hjartans eða stoppa óreglu fari hún af stað með litlum eða engum fyrirvara. Þar er átt við brennslu á leiðnibrautum, ísetningu gangráðs og/eða bjargráðs yfir í stórar hjartaðaðgerðir allt eftir því á hvaða grunni vandi viðkomandi einstaklings er.
Vertu því meðvitaður um hjartað þitt og láttu fylgjast með þér reglubundið til að tryggja það að þú tikkir rétt !