Einstaklingur taldi sig sjá bíl ekið ofan í Ölfusá á Selfossi fyrr í kvöld. Nú stendur yfir umfangsmikil leit að ökumanninum og bílnum og er fjöldi manns á svæðinu.
Á vef Morgunblaðsins segir að vísbendingar séu um að bílnum hafi verið ekið af ásettu ráði ofan í ána. Þetta segir Oddur Árnason yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is en talið er að ein manneskja hafi verið í bílnum.
Þá var óskað eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar en hún fór í loftið um 22:40 í Reykjavík og er nú komin á svæðið. Er notast við hitamyndavél sem er um borð við leitina.
Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar staðfestir í samtali við Vísi að allar björgunarsveitir í nágrenninu hafi verið kallaðar út.
Hvorki bíllinn eða ökumaðurinn hafa fundist en leitarmenn hafa orðið varir við brak, stuðara og þá fannst rúðuskafa sem talið er að tilheyri ökutækinu.