fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
Fréttir

Þetta eru Íslendingarnir sem eru í fangelsum erlendis

Auður Ösp
Sunnudaginn 24. febrúar 2019 09:30

Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tveir íslenskir karlmenn, Helgi Heiðar Steinarsson og Brynjar Smári Guðmundsson, bíða nú dóms í Ástralíu fyrir stórfelldan fíkniefnainnflutning. Mál mannanna tveggja eru aðskilin fyrir héraðsdómi í Melbourne en fyrirtaka fer fram í báðum málum þann 19. mars næstkomandi.

Samkvæmt úttekt DV afplána sex aðrir Íslendingar fangelsisdóm erlendis; í Bretlandi, Bandaríkjunum, Ástralíu og Noregi. Vert er að taka fram að sumir einstaklinganna eru ekki íslenskir ríkisborgarar, en fæddir hér á landi og skráðir í þjóðskrá eða eiga íslenskt foreldri.

Gögn gefa ekki rétta mynd

Í skriflegu svari Sveins H. Guðmarssonar, upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins, kemur fram að ráðuneytið haldi ekki heildstætt yfirlit yfir fjölda íslenskra ríkisborgara í fangelsum erlendis, enda er aðstoðar þjónustunnar ekki alltaf óskað í slíkum málum eða hún látin vita þegar fangar eru látnir lausir úr haldi. Gögn sem utanríkisráðuneytið hefur um slík málefni eru því ófullkomin og gefa ekki rétta mynd af fjölda Íslendinga í fangelsum erlendis.

Fram kemur að allur gangur sé á því hvort óskað sé eftir aðstoð þjónustunnar í slíkum málum. Stjórnvöldum erlendra ríkja ber ekki skylda til að tilkynna handtöku íslenskra ríkisborgara eða dómsniðurstöðu í málum þeirra til íslenskra stjórnvalda. Því er ekki hægt að útiloka að fleiri íslenskir ríkisborgarar geti verið í haldi erlendra yfirvalda án þess að vitneskja um það hafi borist stjórnvöldum hér.

Helgi Heiðar Steinarsson og Brynjar Smári Guðmundsson

Helgi Heiðar Steinarsson og Brynjar Smári Guðmundsson voru handteknir í Ástralíu í nóvember síðastliðnum. Var Brynjar Smári handtekinn á flugvellinum í Melbourne þar sem fjögur kíló af kókaíni fundust í ferðatösku hans, en hann var þá að koma frá Hong Kong. Í kjölfarið var Helgi Heiðar handtekinn á hóteli í Melbourne eftir að 2,7 kíló af kókaíni fundust á hótelherbergi hans, en talið er líklegt að fíkniefnin hafi átt að fara á markað í Ástralíu.

Söluverðmæti efnanna er talið vera sem nemur um 215 milljónum íslenskra króna. Samkvæmt upplýsingum áströlsku tollgæslunnar liggur allt að lífstíðarfangelsi  við brotum mannanna. Verði þeir sakfelldir gætu þeir átt yfir höfði sér langan fangelsisdóm.

Skjáskot af Instagram-síðu Brynjars Smára.

Þess má geta að Brynjar Smári er geysivinsæl stjarna á Instagram með um 17 þúsund fylgjendur. Þá vekur athygli að Helgi Heiðar skipti um forsíðumynd á Facebook um tveimur vikum fyrir handtökuna og skrifaði: „Bjartari mynd fyrir bjartari tíma? Let’s do this!“

Hvorki Helgi Heiðar né Brynjar eiga neinn sakaferil að baki hér á landi, en líkt og fram kom í frétt DV í nóvember síðastliðnum njóta þeir og fjölskyldur þeirra aðstoðar utanríkisráðuneytisins vegna málsins.

Brandon Richmond

Hinn hálfíslenski Brandon Richmond var árið 2012 dæmdur í lífstíðarfangelsi í Bretlandi fyrir að hafa orðið 16 ára pilti að bana. Brandon var aðeins 12 ára gamall þegar dómurinn féll en hann framdi framdi verknaðinn í slagtogi með fjórum eldri unglingspiltum.

Samkvæmt skilyrðum dómsins á hann rétt á reynslulausn á næsta ári. Kristján Jóhann Matthíasson, faðir Brandons, ræðir örlög sonar sínar í viðtali við blaðamann DV sem finna má aftar í blaðinu.

Alexander Gunnar Bjarnason

Samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun Washington-fylkis (Washington State Department of Corrections) situr 28 ára gamall hálfíslenskur karlmaður,  Alexander Gunnar Bjarnason, inni í Monroe Correctional Complex-fangelsinu í Monroe-borg. Situr hann inni fyrir skilorðsrof. Samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni hefur ekki verið staðfest hvenær mál hans mun rata fyrir dómstóla.

Samkvæmt gögnum sem DV hefur undir höndum var Alexander Gunnar handtekinn fyrir skilorðsrof í janúar 2017 og aftur í febrúar sama ár. Í apríl 2017 hlaut hann 6 mánaða fangelsisdóm fyrir fíkniefnavörslu, innbrot, ökutækjastuld, auðkennisstuld og fyrir að auglýsa eða stuðla að vændi. Þá var honum gert að gangast undir áfengis- og vímuefnameðferð. Hann var síðast handtekinn fyrir að rjúfa skilorð í janúar síðastliðnum og var þá neitað um lausn gegn tryggingu.

Sandra Sigrún Fenton

Í ágúst 2016 greindi DV fyrst frá máli ungrar íslenskrar konu, Söndru Sigrúnar Fenton, sem árið 2013 hlaut 37 ára fangelsisdóm fyrir bankarán í Virginíu. Um er að ræða þyngsta dóm sem Íslendingur hefur hlotið erlendis, en Sandra Sigrún er fædd hér á landi og á íslenska móður og bandarískan föður.

Sandra Sigrún Fenton.

Í viðtali við DV lýsti Margrét Fenton, móðir Söndru, hvernig dóttir hennar ánetjaðist hörðum eiturlyfjum eftir að hafa verið nauðgað á táningsaldri. Ránin sem Sandra Sigrún var dæmd fyrir áttu sér stað sama dag, 13. ágúst 2013, hið fyrra í borginni Norfolk í Virginíu-fylki og hið síðara í borginni Chesapeake og sá Sandra Sigrún um að ræna útibúin á meðan að eiturlyfjasalinn hennar beið úti í bíl. Við yfirheyrslur sagði Sandra Sigrún að pilturinn hefði þvingað hana til verknaðarins, en mál þeirra voru engu að síður aðskilin fyrir dómi.

Þar sem um var að ræða tvö rán, hvort í sinni sýslunni, kom ekki annað til greina en að Sandra fengi tvo dóma, einn fyrir ránið í Norfolk og einn fyrir ránið í Chesapeake. Hvor dómur um sig hljóðaði upp á 18,7 ár í fangelsi, samtals 37 ár.

Reynslulausn var afnumin í Virginíu-fylki árið 1995 og eiga fangar því ekki möguleika á að losna fyrr út vegna góðrar hegðunar. Það eru því ekki líkur á öðru en að Sandra muni sitja inni þar til hún er komin á sjötugsaldur. Fjölskylda Söndru hyggst engu að síður fara fram á endurupptöku málsins, en möguleiki er á Sandra Sigrún geti sótt um svokallaða náðun, eða „clemency“, hjá ríkisstjóra Virginíu-fylkis og fengið dóminn þá styttan.

Magni Böðvar Þorvaldsson

Árið 2012 hvarf Sherry Prather, 43 ára kona, sporlaust í borginni Jacksonville í Flórída, eftir að hafa verið úti að skemmta sér með vinkonum sínum. Mánuði síðar fundust líkamsleifar hennar í skógi. Niðurstaðan var að hún hefði verið drepin með skotvopni og morðinginn hæft hana í brjóstið.

Magni Böðvar Þorvaldsson.

Hinn hálfíslenski Magni Böðvar Þorvaldsson, sem búsettur hefur verið í Bandaríkjunum frá árinu 2010, var yfirheyrður skömmu eftir að líkið fannst. Sést hafði til hans og Sherry yfirgefa krá saman þetta örlagaríka kvöld, og þá sást í upptökum eftirlitsmyndavéla að hún hafði fengið far með Magna á bifhjóli hans. Vitni steig fram og sagði Magna bera ábyrgð á dauða Sherry. Við yfirheyrslur viðurkenndi Magni að hafa gefið henni far en neitaði að hafa skaðað hana. Yfirvöld tóku útskýringu Magna trúanlega og var honum sleppt að loknum yfirheyrslum.

Magni var síðan handtekinn árið 2016 þegar fyrrverandi eiginkona hans steig fram og sagði að Magni hefði játað fyrir henni glæpinn. Sem fyrr neitaði hann sök. Það var ekki fyrr en á seinasta ári að hann játaði loks að hafa orðið Sherry að bana.

Enn er ekki vitað hvers vegna Magni framdi þetta voðaverk. „Hann sagði þeim svo margar sögur að þeir vissu ekki hverju þeir áttu að trúa,“ sagði móðir Sherry í samtali við News 4-sjónvarpstöðina eftir að dómurinn var fallinn.

Í mars í fyrra var Magni Böðvar síðan dæmdur í 20 og hálfs árs fangelsi. Hann á ekki möguleika á reynslulausn.

Ámundi Reyr Jóhannsson

Árið 2014 var Ámundi Reyr Jóhannsson dæmdur í 11 ára fangelsi í Noregi fyrir að hafa myrt útvarpsmanninn Helge Dahle. Ámundi var á þeim tíma búsettur í Grimstad en hann flutti til Noregs árið 2005.

Í umfjöllun norska blaðsins VG var haft eftir sjónarvotti að Ámundi hefði drukkið ótæpilega um kvöldið. Um nóttina hafi hann svo í ölæði lýst því yfir að félagi hans, sem var með honum í samkvæminu, hefði níu líf. Í kjölfarið tók hann upp pylsuhníf og gerði sig líklegan til að sanna orð sín.

Þegar Helge reyndi að stoppa Ámunda þá brást Ámundi við með því að stinga Helge þrisvar sinnum í bakið og einu sinni í kviðinn.

Hann var handtekinn á vettvangi og úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald. Helge lést skömmu síðar.

Bjarki Línberg Björnsson og Atli Már Heimisson

Þá hefur DV undir höndum gögn um tvo Íslendinga sem afplána skilorðsbundinn dóm í Bandaríkjunum um þessar mundir.

Samkvæmt dómskjölum frá Lake County í Flórída var 22 ára Íslendingur, Bjarki Línberg Björnsson, sakfelldur fyrir stuld á skotvopni (grand theft firearm) í nóvember 2017.

Bjarki Línberg Björnsson

Brotið átti sér stað í nóvember 2016. Var hann dæmdur til að sæta svokölluðu community supervision í þrjú ár, til 7. nóvember 2020.

Þá er 26 ára karlmaður, Atli Már Heimisson, á skilorði í Iowa-fylki, sem rennur út 2021. Samkvæmt dómskjölum hefur hann hlotið á annan tug dóma, ýmist skilorðsbundið fangelsi eða óskilorðsbundið, frá árinu 2014. Um er að ræða brot á borð við ránstilraun, fíkniefnavörslu, fíkniefnasölu og óspektir og ofbeldisfulla hegðun á almannafæri.

Stefán Ingimar Koeppen

Líkt og DV greindi frá í desember 2017 var íslenskur karlmaður, Stefán Ingimar Koeppen Brynjarsson, handtekinn í Cancún í Mexíkó í október 2016 grunaður um fíkniefnasmygl. Fjallað var um handtöku hans í þarlendum fjölmiðlum en þar kom ekki fram hvers konar fíkniefni var um að ræða eða hversu mikið magn. Eftir handtökuna var Stefán Ingimar fluttur í Cefereso-fangelsið í Perote.

Stefán Ingimar Koeppen.

Í samtali við DV sagðist Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn ekki kannast við málið og þá reyndist málið heldur ekki á skrá hjá borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins. Síðan þá hafa engar upplýsingar borist um dóm yfir Stefáni og er því mögulegt að hann sé í haldi yfirvalda í Mexíkó. Það hefur DV ekki fengið staðfest.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Fólk að gefast upp á lífrænu flokkunarpokunum – Mölflugur á sveimi og allt á floti í eldhússkápum

Fólk að gefast upp á lífrænu flokkunarpokunum – Mölflugur á sveimi og allt á floti í eldhússkápum
Fréttir
Í gær

Fiskiskip rak stjórnlaust upp í fjöru við Patreksfjörð – Skipstjórinn á spítti

Fiskiskip rak stjórnlaust upp í fjöru við Patreksfjörð – Skipstjórinn á spítti
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Jón Þór svarar ákæru um manndrápstilraun og fleiri brot

Jón Þór svarar ákæru um manndrápstilraun og fleiri brot
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Vörubílstjóri þóttist vera annar maður – Var líka fullur og próflaus

Vörubílstjóri þóttist vera annar maður – Var líka fullur og próflaus