Foreldrarnir eru grænmetisætur að eigin sögn. Læknir þeirra hafði sagt þeim að gefa barninu þurrmjólk. Á einhverjum tímapunkti hættu þau að gefa barninu hefðbundna þurrmjólk og fóru að gefa því drykk sem er búinn til úr kartöflum. Þetta var slæmt val því þau voru nærri því búin að svelta barnið í hel.
New York Post er meðal þeirra bandarísku fjölmiðla sem skýra frá þessu. Haft er eftir Lauren Watson, hjá lögreglunni í Titusville, að hún hafi aldrei séð barn í svona slæmu ástandi og nærri dauðanum.
„Á meðan barnið fékk þurrmjólk gekk allt vel og það dafnaði vel og hafði það gott en síðan skiptu þau yfir í kartöfludrykkinn.“
Lögreglan segir að rifbein barnsins hafi verið auðsjáanleg og að augu þess hafi verið sokkin. Barnið var einnig mjög máttvana og ofþornað.
Læknar segja að næringarskorturinn sem barnið varð fyrir geti haft langvarandi áhrif.